134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:01]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu hv. þm. Ástu Möller og reyndar í greinargerð með þessu frumvarpi kemur fram að það skuli stefnt að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þús. kr. á mánuði frá lífeyrissjóði og muni frumvarp þess efnis verða lagt fram á haustþingi 2007.

Ég spyr hv. þingmann að því af hverju þessi greiðsla kemur ekki beint frá almannatryggingakerfinu, af hverju þessar skuldbindingar eru lagðar á lífeyrissjóði sem byggja á iðgjöldum og hafa skyldur til að greiða út eftir því en geta ekki tekið á sig skyldur samkvæmt þessum yfirlýsingum í frumvarpinu án þess að fá þá fjármagn frá ríkissjóði til að mæta þeim skuldbindingum.

Það er því nokkuð brýnt að það komi skýrt fram fyrir lífeyrissjóði í landinu hvernig ríkisstjórnin hyggist standa að þessum málum. Ætlar hún að grípa inn í það ferli sem lífeyrissjóðirnir byggja á og þann samningsgrundvöll sem þeir byggja á, frjálsum samningum, og skylda þá til þessa?

Að lokum vil ég segja það, ég á nú einhvern örlítinn tíma eftir, að hér er lýst háleitum og góðum markmiðum og málum sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum fylgjast vel með og leggja allt okkar að mörkum svo vel til takist.