134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:03]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir sem stóðu að þessari tillögu lögðu höfuðið töluvert í bleyti til að finna út hvaða hópar væru með lægstu tekjurnar, væru verst settir. Það var niðurstaða okkar eftir að hafa skoðað mörg gögn og eftir ítarlega yfirferð að þetta væri einmitt sá hópur sem hefði lægstar tekjur í lífeyrissjóðum. Eins og kom fram í ræðu minni áðan er um þriðjungur ellilífeyrisþega með undir 25 þús. kr. tekjur úr lífeyrissjóði.

Niðurstaðan varð sú að til að hitta einmitt þann hóp fólks þá væri rétt að beina þessu í gegnum lífeyrissjóðina eins og hér er lagt til. Hugmyndin er sú að ríkissjóður muni bæta það að fullu. Þær upphæðir sem þarna er um að ræða koma ekki úr sjóðum lífeyrissjóðanna heldur beint úr ríkissjóði. Sá hópur sem er með svona lítinn rétt í lífeyrissjóði fer hins vegar minnkandi. Fólk sem nú er að fara á lífeyri er með meiri rétt í lífeyrissjóðum og þeir sem eldri eru og hafa lítinn rétt falla frá og þá mun fækka í þessum hópi.

Það er því alveg ljóst að ríkissjóður mun bæta þetta. Þetta eru tæplega 25 þús. kr. sem bætast við lífeyri almannatrygginga og eru meðhöndlaðar með sama hætti og lífeyrissjóðstekjur annarra sem eru með þessa upphæð eða hærri.