134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:06]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum þá ekki sammála um leiðir en þetta varð sú niðurstaða sem við komumst að. Fyrstu viðbrögð lífeyrissjóðanna eru í þá veru að þeir hafa ekkert á móti þessu hlutverki sínu, að taka þetta yfir þann tíma sem til þarf.

Hins vegar tek ég undir með hv. þingmanni að það eru sérstaklega ánægjulegir þættir í þeim breytingum sem hafa orðið á lífeyristryggingakerfinu á síðustu árum sem mæta sérstaklega konum. Þá á ég við að annars vegar minnka tekjutengingar á milli maka, sem við sáum að höfðu sérstaklega mikil áhrif á konur. Ég sá dæmi um það í ákveðnu tilviki þar sem maki konu hafði háar lífeyrissjóðstekjur sem hafði áhrif á lífeyri almannatrygginga til hennar en við breytingarnar sem urðu um síðustu áramót hækkaði tiltekin kona um 40 þús. kr. á mánuði, sem skipti verulega miklu máli. Jafnframt lýsi ég sérstakri ánægju með tillöguna um 25 þús. kr. vegna þess að sú upphæð mun bæta kjör kvenna sérstaklega, því eins og kom fram í ræðu minni áðan þá hafa konur haft færri tækifæri til þess að afla sér réttinda í lífeyrissjóðum en karlar vegna þeirra þjóðfélagsaðstæðna og viðhorfa í samfélaginu sem ríkti hér, ekki síst á árum áðum.