134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:21]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það ber að fagna því frumvarpi sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur talað fyrir, um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Þau skref sem hér eru stigin eru í fullu samræmi við málflutning okkar sjálfstæðismanna sem og annarra flokka fyrir kosningarnar í vor, sem og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um öfluga velferðarþjónustu sem byggir á traustum grunni fyrri ára.

Markmið þessa frumvarps, herra forseti, er að bæta hag ellilífeyrisþega með því að draga úr vægi viðmiðunartekna gagnvart greiðslum lífeyristrygginga og einnig er lagt til að atvinnutekjur þeirra sem eru 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á greiðslur lífeyristrygginga. Þessi skref eru þau fyrstu af mörgum í velferðargöngu sem styrkja mun stöðu eldri borgara. Þau eru afar mikilvæg samfélagslega.

Eldri borgarar búa yfir mikilli reynslu og þekkingu og mikil verðmæti eru fólgin í því að geta nýtt starfskrafta þeirra sem þess óska að vinna áfram. Þau skipta ekki síður máli hin auknu lífsgæði sem felast í því fyrir þá eldri borgara sem vilja að geta tekið virkan þátt í atvinnulífi þjóðarinnar og hafa um leið möguleika á að bæta hag sinn.

Virðulegi forseti. Engum blandast hugur um að einföldun almannatryggingakerfisins er löngu tímabær og frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra á þessu vorþingi markar tímamót þar um. Samspil skatta, tryggingabóta, greiðslna úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga þarf að skoða gaumgæfilega til að tryggja meiri sanngirni og ekki síður til að hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar.

Það er afar mikilvægt, hæstv. forseti, að hækka grunnlífeyri, að draga úr tekjutengingum og skerðingum bóta í þessu flókna kerfi almannatrygginga. Það eru mannréttindi allra, kvenna jafnt sem karla, að skerðing tryggingabóta vegna tekna maka verði að fullu afnumin.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Skoðað verði hvort undanskilja megi hluta af lífeyrissjóðstekjum eldri borgara skerðingum í almannatryggingakerfinu. Jafnframt skal stefnt að því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði. Almennt skerðingarhlutfall í almannatryggingakerfinu lækki í 35%.“

Ég leyfi mér að vona, herra forseti, að ekki verði aðeins skoðað og stefnt að heldur framkvæmt. Það er sanngjörn krafa og í raun réttlætismál að eldri borgarar búi við fjárhagslegt öryggi. Í allsnægtaþjóðfélagi okkar ætti það að vera metnaðarmál ráðamanna.

Virðulegi forseti. Það blasir við að mörg verkefni og ólík í málum sem snerta eldri borgara bíða hæstv. heilbrigðisráðherra á næstu missirum og fylgja honum góðar óskir í vandasömu starfi. Fjölgun hjúkrunarrýma er nauðsyn. Hraða á byggingu 400 rýma og það er vel. Mestu máli skiptir þó að þeir sem eru sjúkir aldraðir fái þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda hverju sinni óháð stað og stund. Þá þjónustu þarf ekki endilega að veita á hjúkrunarheimilum eða öðrum stofnunum. Það kann að vera hagkvæmt — það er í það minnsta íhugunar virði, herra forseti — að auka enn frekar búsetuúrræði og veita eldri borgurum val um að búa þar sem þeir kjósa. Til þess að svo megi verða þarf að efla heimaþjónustu, heimahjúkrun, samhæfa alla þjónustu betur og gera hana bæði einstaklingsmiðaðri og skilvirkari.

Í dag skarast verkefni ríkis og sveitarfélaga í öldrunarmálum og það kallar iðulega á árekstra sem koma niður á þeim sem á þjónustunni þurfa að halda. Því þarf að breyta. Það gerum við best með því að færa þennan málaflokk ásamt heilsugæslunni frá ríki til sveitarfélaga. Sveitarfélögin, herra forseti, eru mörg hver vel í stakk búin til að taka við verkefnum frá ríkinu og hafa sýnt það í verki. Öldrunarmálin eru nærþjónusta og hana á að veita af þeim sem gleggst þekkja til.

Sveitarfélögin hafa einnig sýnt að þau eru óhrædd við að fara ótroðnar slóðir og leita nýjunga í uppbyggingu og rekstri og slíkt gæti nýst á margan hátt í öldrunarþjónustu því að þarfir eldri borgara, væntingar þeirra og óskir, eru mismunandi og þjónusta nærsamfélagsins þarf að endurspegla þá staðreynd. Það er grundvallaratriði og í raun mannréttindi að sjálfræði eldri borgara um val á þjónustu sé virt þegar þeir þurfa á stuðningi samfélagsins að halda.

Virðulegi forseti. Öldrunarmál sem einn þáttur heilbrigðismála skiptir alla máli. Á Íslandi er afar góð heilbrigðisþjónusta og frábært starfsfólk. En ég vil sjá fjölbreyttari úrræði í þessum málaflokki, hæstv. heilbrigðisráðherra, hvort sem um vistun, heimaþjónustu, heimahjúkrun eða læknisþjónustu er að ræða. Ég vil sjá fjölbreyttara rekstrarform og leyfa einkaaðilum að spreyta sig í þessum málaflokki í miklu meiri mæli. Hið opinbera heldur áfram að greiða fyrir þjónustuna þó svo að einkaaðilar veiti hana.

Það er sátt í samfélagi okkar og í íslenskum stjórnmálum um að skattfé okkar sé varið til að halda úti öflugu velferðarkerfi. Á því verður engin breyting. En kraftur einkaframtaksins hefur með frábærum hætti gjörbreytt háskólaumhverfi á Íslandi og ég er sannfærð um að það yrði einnig þróunin í þessum málaflokki.

Herra forseti. Við þurfum að vera opin fyrir nýjum leiðum og hugmyndum á þessu sviði sem og öllum öðrum. Frumvarp hæstv. heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra eru vonandi aðeins fyrstu skref í metnaðarfullum áformum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar um að bæta hag eldri borgara á Íslandi.