134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:29]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna frumvarpi hæstv. heilbrigðisráðherra sem snýst um að bæta kjör eldri borgara með því að afnema að fullu tekjutengingar vegna atvinnutekna 70 ára og eldri. Frumvarpið undirstrikar þá áherslu sem núverandi ríkisstjórn leggur á málefni eldri borgara. Þetta er einungis fyrsta skrefið af mörgum í þá veru að bæta afkomu eldri borgara. Því miður hefur kerfið sem við búum við í dag í raun refsað þeim eldri borgurum sem hafa viljað vinna þar sem skerðingarhlutföll eru of há, þrátt fyrir að þau hafi verið lækkuð mjög mikið á undanförnum árum. Þetta hefur orðið til þess að þvinga eldri borgara út af vinnumarkaði þar sem þeim hefur verið refsað fyrir að vinna með alls kyns skerðingarákvæðum.

Herra forseti. Eins og ég kom inn á er þetta aðeins fyrsta skrefið hjá ríkisstjórninni. Það hefur líka komið fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að hún vill bæta sérstaklega kjör þeirra eldri borgara sem verst hafa kjörin með því að ríkissjóður tryggi lífeyrisþegum að lágmarki 25 þús. kr. á mánuði frá lífeyrissjóðum. Þetta er mjög mikilvægt því að við vitum að fólk á erfitt með að lifa af strípuðum bótum frá ríkinu. Það kunna að vera margar skýringar á því hvers vegna fólk hefur ekki öðlast lífeyrisréttindi en stærsti hópurinn mun vera konur sem voru hlutfallslega lítið úti á vinnumarkaðnum á starfsævi sinni og oft á tíðum aðeins í hlutastörfum, ef þær voru þá á annað borð úti á vinnumarkaðnum.

Það er mikilvægt að draga almennt úr skerðingarhlutföllum. Því er gott til þess að vita að búið sé að setja það inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að almennt skerðingarhlutfall í almannatryggingakerfinu lækki í 35%.

En það er fleira en fjármagn það sem eldri borgarar hafa á milli handanna sem skiptir máli, ekki síður þarf að huga vel að þjónustu við þennan hóp. Mikilvægt er það markmið ríkisstjórnarinnar að allir sem rétt hafa á hjúkrunarrýmum og öðrum þeim búsetu- og þjónustuúrræðum sem eru á hendi ríkisins fái notið þeirra. Það er vitað að það má létta mikið á eftirspurn eftir hjúkrunar- og þjónusturýmum með því að veita þeim eldri borgurum sem það kjósa betri þjónustu heima við. Því er mikilvægt að færa ábyrgð á lögbundinni þjónustu við aldraða og fatlaða á eina hendi, þ.e. frá ríki til sveitarfélaga. Með því mun sambandið á milli þeirra sem þjónustuna nota og þeirra sem veita hana verða mun skýrara og boðleiðir styttast til muna. Með slíku fyrirkomulagi ætti líka að vera hægt að koma í veg fyrir að sveitarfélögum sé mismunað hvað varðar þjónustuframboð.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur sagt að hún muni leggja áherslu á bætta þjónustu og bættan hag eldri borgara. Horft verður sérstaklega til þess að þjónustan og sá lagarammi sem þeim verður búinn taki mið af mismunandi þörfum hvers og eins og að þjónustan verði einstaklingsmiðuð. Hér er sleginn tónn í þessa veru, tónn sem er táknrænn fyrir það sem koma skal á þessu kjörtímabili hjá nýrri ríkisstjórn og undirstrikar að hún mun leggja áherslu á málefni eldri borgara númer eitt, tvö og þrjú.