134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég tel að þetta frumvarp sé til bóta svo langt sem það nær. Hins vegar er líka rétt að vekja athygli á að sumt af því sem hv. þm. Pétur Blöndal fór yfir áðan vekur upp margar spurningar varðandi þá útfærslu sem hér er verið að leggja til. Það er auðvitað vegna þess, eins og hann benti réttilega á, að réttur okkar allra í þjóðfélaginu er mjög misjafn, að hvar svo sem við höfum starfað á ævinni eigum við misjafnan rétt.

Fyrsti misjafni rétturinn sem við öðlumst þegar við verðum eldri borgarar er sá að geta valið hvort við förum að taka út lífeyrisgreiðslur okkar sextug. Það getum við flest, við eigum það val. Við getum líka valið að fresta því til sjötugs í lífeyrissjóðunum yfirleitt. Það val sem þarna er til staðar ræðst sjálfsagt af því hvort fólk er heilbrigt þegar það kemst á aldursmörkin 60 ára eða ekki, hvort það velur að taka út lífeyri sinn eða hvort það velur að gera það ekki og jafnvel safna upp auknum lífeyrisrétti eins og hægt er í nokkrum lífeyrissjóðum, m.a. Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Næsta mismunun sem er kannski rétt að vekja athygli á í þessari umræðu er auðvitað sú að réttur starfsstétta í lífeyriskerfinu er misjafn. Almennur réttur lífeyrisþega, þ.e. á almennum vinnumarkaði, er sá að menn afla sér samkvæmt lögum um almenna starfsemi lífeyrissjóða að mig minnir 56% af inngreiðsluviðmiðun yfir starfsævina, miðað við 42 ár eins og kom fram áðan. Ég held að því hafi ekki verið breytt, það var nefnt hér að hún væri 60%, ég held að hún sé enn þá 56%, þó kann að vera að mig misminni í því og þessu hafi verið breytt.

Opinberir starfsmenn komast hins vegar yfirleitt í þá stöðu að geta eignast 70% lífeyrisrétt af viðmiðunarstöðunni, af þeirri stöðu sem sá gegnir sem við tók, og eru þar af leiðandi með verðtryggðan lífeyri miðað við launakjör opinberra starfsmanna á vinnumarkaði.

Síðan eru ýmsir aðrir lífeyrissjóðir eins og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga sem fylgir einnig opinberu lífeyrissjóðunum en þar eru kannski svolítil sérréttindi, ég ætla ekki að fara nánar út í það, ég ætla að fara út í almennu reglurnar.

Hverjir ætli séu næstir í röðinni, ætli það séu ekki alþingismenn sem eiga rétt á lífeyri sem samþykktur var hér með lögum og vinna sér inn núna að meðaltali 3% á ári af þingfararkaupi? Prósentan var misjöfn áður. Við alþingismenn fáum 12% af þingfararkaupi eftir eitt kjörtímabil og svo geta allir reiknað þetta út eftir því hvað menn sitja lengi á þingi.

Þar ofan á eru auðvitað ráðherrarnir sem fengu sérstaka lagfæringu í pakkanum okkar, miklu meiri lagfæringu og betri réttindi en almennir alþingismenn. Breyting almennra alþingismanna var ekkert mjög mikil, það fer svolítið eftir því á hvaða starfsaldursbili alþingismenn voru, hvort þeir voru búnir að vera 12 ár eða 16 ár, vegna þess að prósentan var misjöfn áður en er núna 3% flöt. Ráðherrarnir hafa þarna mun víðtækari rétt eins og ég gat um og þar af leiðandi er ég væntanlega búinn að gera grein fyrir því hve staða hinna vinnandi stétta í íslensku þjóðfélagi er misjöfn.

Ofan á þessu trónir ein stétt sem er tryggð í stjórnarskrá Íslands og engin önnur stétt hér á landi, mér vitanlega, hefur sömu réttindi og hún, það eru hæstaréttardómarar þar sem stendur í stjórnarskrá að þeir skuli einskis í missa í launum sínum í hverju sem þau eru greidd þegar þeir komast á lífeyri.

Þetta er aðeins kortlagning á því í stuttu máli hvernig lífeyriskerfið okkar er, það er nefnilega misjafnt. Þess vegna er tryggingakerfið okkar að mörgu leyti misjafnt og óréttlátt af því að við höfum ekki gætt þess nægilega, hæstv. forseti, að tryggja að þeir sem lægst hafa launin og lökust hafa lífeyrisréttindin, eru veikir og örkumla, njóti betri réttar en hinir sem hafa enn þá mikla starfsorku og miklar tekjur og þetta er auðvitað verkefni sem við í hv. Alþingi þurfum að fást við. Þess vegna er það rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal vék að áðan að útfærslan er vandasöm.

Ég vil trúa því að allir alþingismenn, hvar í flokki sem þeir standa, vilji tryggja að þeir sem lakast eru settir á efri árum og öryrkjar njóti lágmarkskjara sem dugi þeim til eðlilegrar framfærslu. Ég hef litið svo á að menn vildu það. Um það varð hins vegar löng og mikil umræða á síðasta hausti á hv. Alþingi þar sem stjórnarandstaðan þáverandi lagði til sérstakan frumvarpsbálk um það hvernig taka ætti á því að bæta tryggingakerfið, tekjutengingarnar og stöðu aldraðra og öryrkja. Ég ætla ekki að fara yfir þann pakka allan en hann byggðist á því í grófum dráttum að vera með miklu hærra frítekjumark en núna hefur verið sett, þ.e. 75 þús. kr. frítekjumark en ekki 25 þús kr., að skerðingarprósentan væri 35% frá síðustu áramótum, ekki tæp 40% eða 39,95 eins og hún er nú en lækkar í 38% um næstu áramót, að skoðað yrði sérstaklega hvernig taka mætti á lífeyristekjum með tilliti til þess hvaða skerðingarreglur ættu að virka á lífeyristekjur, þ.e. frá lífeyristekjunum á tryggingakerfið því að þannig virkar þetta, talað var um tekjutengingu maka sem ríkisstjórnin er nú sammála um að verði felld niður og allir eru væntanlega sammála um það á hv. Alþingi. — Hæstv. ráðherra, ég óska þér til hamingju með starfið.

Ef við veltum hins vegar fyrir okkur ýmsu sem hér er sagt, ég tek undir að þau skref sem hér eru stigin eru til bóta, þá finnst mér vanta skýringu á því hvers vegna ekki er talað um 67 ár og skilið þarna eftir bil frá 67 upp í 70 ár. Ég vænti þess að ráðherra fari fleiri orðum það en lesa má út úr greinargerðinni.

Mér finnst líka þurfa að ræða sérstaklega þó að það sé ekki í þessu frumvarpi heldur boðað á næsta hausti frumvarp um að lífeyrissjóðir greiði þeim 25 þús. kr. sem hafa minni rétt en 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Við megum ekki gleyma því þegar við tölum um þetta að lífeyristekjur skerða allar bætur frá Tryggingastofnun nema grunnlífeyrinn. Það er bara grunnlífeyririnn, 24.800 kr., sem lífeyristekjur skerða ekki. Að öðru leyti skerða lífeyristekjur bætur Tryggingastofnunar sem áður hétu tekjutrygging og tekjutryggingarauki en heita núna ný tekjutrygging upp á 79 þús. kr. Sú tala skerðist öll, 79 þús. kr., ef menn hafa nógu miklar tekjur úr lífeyrissjóði.

Hvað gerist í raun og veru ef menn ætla að lagfæra þetta með 25 þús. kr. greiðslum úr lífeyrissjóði sem ríkissjóður greiðir væntanlega til lífeyrissjóðanna því að ekki ætlum við að skerða þá sem fyrir eru? Eins og gert var með 60 ára reglu sjómanna sem var eingöngu lögð á þá sem voru fyrir í sjóðnum, sem allar ríkisstjórnir og allir fjármálaráðherrar meðan ég var í Farmanna- og fiskimannasambandinu neituðu að lagfæra þó að það þýddi í raun og veru bara skerðingu á lífeyrisrétti sjómanna í lífeyrissjóðnum? Við urðum að gera svo vel að ganga í gegnum það og þola margar skerðingar á þeim réttindum. Ekki nóg með það, ekkjurnar í Lífeyrissjóði sjómanna þurftu líka að taka því að ekknabætur voru skertar og þær eru skildar eftir á köldum klaka eftir þrjú ár. Þannig er það.

Huga þarf að þessu máli varðandi ekkjur og ekkla í lífeyrissjóðakerfinu almennt og huga þarf að bændakonum sem eru sérhópur með afar slök lífeyrisréttindi. Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að oftast nær voru bændur með svo lág laun að ekki var hægt að reikna fulla endurgreiðslu til konunnar. Það var yfirleitt bóndinn, ef hann var karlmaður — stundum var bóndinn kona — sem fékk inngreiðsluna en svo var kannski hugsanlegt að reikna 50% laun á konuna og þá var lífeyrisgreiðslan inn í Lífeyrissjóð bænda í samræmi við það. Þess vegna eru það ekki bara bændur einir og sér sem hafa slakan lífeyri vegna lágra tekna heldur makar þeirra, eiginkonur hafa jafnvel enn verri lífeyrisrétt. Því miður eru dæmi um fólk sem enn er að fá minna en 10 þús. kr. úr lífeyrissjóði sínum. Þetta mun auðvitað breytast á komandi árum þegar allir hafa greitt í lífeyrissjóð af öllum tekjum sínum en það var lengi ekki gert eins og allir vita. Stundum var greitt af dagvinnunni, sjómenn greiddu af hálfri hásetatryggingu, síðan fullri hásetatryggingu o.s.frv. og ekki fyrr en 1987 af öllum launum í lífeyrissjóð. Ég undirstrika þegar við tölum um þessi mál, um lífeyrisrétt og skerðingarreglur, að staða íslenskra ríkisborgara er misjöfn, hún er afar misjöfn eftir því hvort þeir voru venjulegir launþegar, opinberir starfsmenn, alþingismenn, ráðherrar eða hæstaréttardómarar.

Ef við tökum einhvern sem er með aðeins 15 þús. kr. lífeyrisréttindi í lífeyrissjóði og ríkissjóður hyggst bæta við 10 þús. kr. til að hífa viðkomandi upp í 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði, hvað gerist þá í raun og veru? Af 10 þús. kr. er tekin 40% skerðing eða núna 39,95%, þ.e. 4 þús. kr. fara þar. Svo kemur skattur á restina og afraksturinn er þá 2.160 kr. Skerðingin alls veldur því að sá sem ríkissjóður ætlaði að greiða 10 þús. kr. svo að hann fengi 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði fær raunuppbót upp á 3.840 kr. Það er rauntekjuaukningin þegar búið er að skerða tekjutrygginguna á móti og skattinn hinum megin vegna þess að persónuafslátturinn er lágur.

Þegar hv. þm. Ásta Möller sagði áðan að skerðingarreglan hefði einu sinni verið 67% og hefði síðan verið lækkuð í 45% til hagsbóta fyrir alla þá er það alveg rétt tölulega en skilaði það sér til eldri borgara? Nei. Hvers vegna ekki? Vegna þess að persónuafslátturinn var látinn síga á móti, hann hélt ekki raungildi sínu. Og af því að persónuafslátturinn hélt ekki raungildi sínu breyttust skattleysismörkin og þeir sem áður töldu að þeir væru að fá mikla kjarabót, frá 67 niður í 45, fengu hana ekki. Það var tekið í ríkissjóð eftir annarri leið.

Þess vegna er það grundvallaratriði, hæstv. ráðherra, þegar við förum í gegnum þessi mál að við skoðum þau alveg ofan í kjölinn, samspil skatta og skerðinga, samspil bóta og skerðinga, samspil atvinnutekna annars vegar og lífeyrisgreiðslna hins vegar, stöðu hvers hóps, stöðu fólks sem á réttindi í mismunandi lífeyrissjóðum. Besta verkið sem hæstv. ráðherra gæti unnið fyrir okkur til að undirbúa okkur fyrir næsta haust væri að biðja alla lífeyrissjóði landsins um útkeyrslu á bótaþegum sem hafa undir 10 þús. kr., undir 20 þús. kr., undir 30 þús. kr. út úr lífeyrissjóði þannig að við vitum nákvæmlega á næsta hausti hvaða vandamál við erum að tala um, hvernig við ætlum að leysa það, því að væntanlega ætlum við að leysa það þannig að staða þeirra sem lakast eru settir batni mest. Það hlýtur að vera tilgangurinn ef við meinum það að fólk eigi að komast af á lágmarkstekjum sínum.

Ég tók það a.m.k. þannig í síðustu kosningabaráttu, það var skilningur okkar að tryggingakerfið, lagfæring þess og aðkoma okkar að því að bæta kjör aldraðra fælist í því að þegar upp væri staðið gætum við sagt við okkur sjálf: Það komast allir af. Það hlýtur að vera markmiðið. Til þess verðum við að horfa á öll þau atriði sem ég hef minnst hér á. Ég þarf ekki að lengja mál mitt meira að þessu leyti, ég held að ég hafi skýrt það sem ég á við.