134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:00]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Umræðan í dag um frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar gaf mér tilefni til að biðja um orðið. Það vita allir sem vilja vita að lífeyriskerfið sem við búum við í dag er afar óréttlátt, mismunar fólki herfilega og verst í því eru ef til vill þau lög sem við settum á Alþingi um lífeyrisréttindi alþingismanna, þó sérstaklega ráðherra.

Ég nefndi í dag að ég teldi eðlilegra að þær aukagreiðslur sem boðað er að lífeyrissjóðir greiði fari í gegnum almannatryggingakerfið. Ég er fastur á þeirri skoðun og vildi minna á að þegar lífeyrissjóðakerfið var sett á stofn árið 1968 var tekin ákvörðun um að bæta því fólki það upp sem var um miðjan aldur eða komið yfir miðjan aldur þegar kerfið var tekið upp. Þeir einstaklingar sem fæddir voru fyrir 1914 fengu uppbót úr almannatryggingakerfinu. Það voru sem einstaklingar fæddir fyrir 1914 og ég hygg að það eigi að fara þá leið til að bæta konum skert lífeyrisréttindi vegna þess að þær hafa verið heimavinnandi hluta starfsævinnar eða jafnvel alltaf verið heimavinnandi. Staða þeirra kvenna sem húsmæðra og skertur lífeyrisréttur fylgir þeim alveg fram á ævikvöldið, fram á grafarbakkann.

Hér í salnum hafa menn nefnt mismunun sem snýr að húsmæðrum. En mismununin á sér fleiri hliðar. Hér búum við við kynbundinn launamun sem er talinn allt að 18%. Það er mismun á launum karla og kvenna fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. Það er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og svona hefur staðan verið í fjögur kjörtímabil Sjálfstæðisflokksins og þrjú kjörtímabil Framsóknarflokksins. Það er til ævarandi skammar að við skulum láta þau mannréttindabrot líðast. Það er til ævarandi skammar. Það hefur ekkert tommast á ríkisstjórnarárum Sjálfstæðisflokksins né Framsóknarflokksins.

Því miður er það svo að stefnuyfirlýsingin er að mínu mati ekki nógu afgerandi um þetta. Þegar rætt er um óútskýrðan launamun þá er verið að fela eitthvað. Það er kynbundinn launamunur sem er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þessi kynbundni launamunur fylgir konum síðan inn í ellilífeyrisaldurinn og til æviloka.

Annar munur fylgir konum inn á ellilífeyrisaldurinn. Það er vanmat þjóðfélagsins á umönnunarstörfum. Heildartekjur kvenna eru aðeins um 63% af heildartekjum karla. Þar er tæplega 40% munur. Þær breytingar sem hér eru lagðar til megna ekki að leiðrétta þann mun á kaupi og kjörum karla og kvenna. Það er ekki stigið nema stutt skref í þeim efnum. Vanmatið á umönnunarstörfum er allsráðandi og gegnsýrir allt þetta þjóðfélag. Jafnvel grunnstoðir þess, heilbrigðiskerfið og annað, á í vök að verjast í starfsmannahaldi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka haft 16 ár til að leiðrétta þennan mun og rétta hlut kvenna, og Framsóknarflokkurinn 12 en ekkert hefur tommast í þeim efnum.

Á sama tíma og þessar staðreyndir liggja fyrir um stöðu kvenna á vinnumarkaði og stöðu heimavinnandi kvenna þá ákveður Seðlabankinn, bankastjórnin á fundi, hækkun á launum seðlabankastjóra um 200 þús. kr. á mánuði. Maður spyr sig: Er þessi bankastjórn ekki í raunveruleikatengslum? 200 þús. kr., takk fyrir. Og það er farið bakdyramegin með þessa hækkun. Af hverju segi ég bakdyramegin? Jú, vegna þess að fyrst byrja bankastjórarnir á að hækka laun undirmanna sinna verulega. Svo koma bankastjórarnir og segja: Það er nú svo, háttvirta bankastjórn, að laun undirmanna okkar hafa hækkað svo mikið að við verðum líka að fá hækkun.

Hverjir skyldu nú hafa tekið þátt í þessari ósvinnu í bankastjórninni? Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, greiddu atkvæði með þessu. Sama gilti um fulltrúa Framsóknarflokksins. Eini fulltrúinn sem stóð í lappirnar við þessa ákvörðun var Ragnar Arnalds, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Seðlabankanum. Þetta er skammarlegt. Ég skammast mín fyrir hönd Seðlabankans. Sagt er að seðlabankastjórar séu með hærri laun en meira að segja seðlabankastjóri Bandaríkjanna og jafnvel á tvöföldum launum, jafnvel með lífeyri frá öðrum stöðum sem ráðherrar úr fyrri störfum þeirra.

Það er ótrúlegt að sjá þetta gerast enn þann dag í dag. Þetta er eins og blaut tuska framan í venjulegt launafólk. Þetta er eins og blaut tuska framan í konur sem sinna umönnunarstörfum. Þetta er gjörsamlega ólíðandi. Hér á Alþingi eru boðaðar umbætur fyrir konur og breytingar á almannatryggingalögum meðan með vinstri hendinni er verið að sólunda fé uppi í Seðlabanka. Hægri höndin veit fullkomlega hvað sú vinstri er að gera í þessum efnum. Ég lýsi fullri ábyrgð á ríkisstjórnarflokkana í þessum efnum, fyrir þessa gustuk sem seðlabankastjórum var veitt, 200 þús. kr. á mánuði og ég lýsi fullri ábyrgð á hendur fulltrúa Framsóknarflokksins.

Varðandi breytingar síðan á þessum almannatryggingalögum þá standa hér upp fulltrúar, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, berja sér á brjóst og segja: Sjáið þið hvað við erum glæsileg? Sjáið þið hvað Sjálfstæðisflokkurinn stendur með öldruðum? Hvað er verið að gera? Jú, það er verið að leiðrétta skerðingar síðustu 16 ríkisstjórnarára Sjálfstæðisflokksins. Þær eru ekki núllstilltar. Skerðingarnar standa áfram. Þetta er leiðrétt eitthvað en langt í frá til fulls. Að berja sér á brjóst og hrósa sér yfir þessu segir meira en mörg orð.

Sextán ríkisstjórnarár, 16 ára samfelld skerðing, 16 samfelld ár kynbundins launamunar og mannréttindabrota á hverri klukkustund í hverri viku, í hverjum mánuði. Það er ekki sæmandi.