134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:08]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og himinn og jörð séu að farast þegar þessi ágæti hv. þingmaður talar um þessi mál. Ég hef tekið þátt í því að skammast hressilega út í Sjálfstæðisflokkinn fyrir svipaða hluti. En hann gæti þó alla vega sagt að batnandi mönnum væri best að lifa og að verið væri að leiða þá frá villu síns vegar. Ef menn vilja sjá hið jákvæða í þessu máli.

Ég kem aðallega upp til þess að mæla nokkuð mildilega til hv. þingmanns en vanda þó um við hann og segja að það sé kannski heldur langt til seilst, og jafnvel um hurð til lokunnar, þegar hv. þingmaður kemur upp og segir að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé ekki fast að orði kveðið um jafnréttið. Herra trúr!

Það segir í stefnuyfirlýsingunni að gera eigi áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu og stefna að því að hann minnki um helming á kjörtímabilinu. Hv. þingmaður hefur tækifæri til þess að mæla árangur þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að lokum kjörtímabilsins. Það segir líka, með leyfi forseta:

„Endurmeta ber sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera. Einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta.“

Er það ekki þetta sem hv. þingmaður hélt um langar, góðar og bara fjandi snjallar ræður, þegar hann kom inn sem varaþingmaður á síðasta kjörtímabili? Jú, það var um þetta. Svo er búið að negla þetta hér inn í ríkisstjórnarsáttmálann og þá kemur hv. þingmaður og segir: Þetta er ekki nóg.

Herra forseti. Þetta er nánast nákvæmlega sama orðalagið og flokkur hv. þingmanns tók þátt í að setja niður á vegum Reykjavíkurlistans. Orðum það þannig að það hafi verið forverar hans. Það situr hér kona úti í sal sem tók þátt í því. Nákvæmlega þetta var sett niður og það var gert.

Ég segi nú: Er ekki allt í lagi að bíða eftir því að sjá hvort þetta gerist áður en hv. þingmaður fer að dansa hérna stríðsdansinn?

Í öllu falli finnst mér ósanngjarnt að segja að þetta sé (Forseti hringir.) ekki afgerandi orðalag. Við skulum deila um efndirnar síðar en orðalagið getur ekki verið skýrara.