134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:12]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gerist oft á þessum þingdögum sem við eigum saman að við sjáum merki þess sem mætti kalla pólitískt sykurfall. Hv. þingmaður kemur í glöðu og góðu skapi í dag og hrósar sáttmálanum. En svo gerist eitthvað þegar líður á daginn. Hugsanlega er það pólitískt sykurfall. Hv. þingmaður hefur núna gjörsamlega tapað gleði sinni.

Það sem ég kom upp til þess að mótmæla hjá hv. þingmanni varðaði ummæli hans um kynbundinn launamun. Ég segi það í fullri einlægni. Það er ekki annað en vanþakklæti hjá hv. þingmanni að halda því fram að það sé ekki í gadda slegið þegar talað er um það að minnka kynbundinn launamun um helming.

Nú ætla ég að upplýsa hv. þingmann um að það tók flokkssystur hans og flokksbræður hjá Reykjavíkurborg, í samstarfi við Samfylkinguna og Framsóknarflokkinn, sex ár að ná þessum áfanga. Það tók sex ár vegna þess að þetta er flókið og erfitt mál. Því skyldi hv. þingmaður gera aðrar og meiri kröfur til ríkisstjórnarinnar en til þeirrar borgarstjórnar þar sem skoðanasystkini hans voru hluthafar?

Mætti ég kalla það hræsni af hv. þingmanni? Hugsanlega, en ég ætla ekki að gera það. En hv. þingmaður þarf að gá að sér. Hann þarf að vera samkvæmur sjálfum sér. Það sem hann hefur sjálfur blessað og hans flokkssystkini úti í Ráðhúsi og hrósar sér með réttu af í kosningabaráttu fyrir sléttu ári, hann getur ekki komið hingað og afflutt það með þessum hætti. Það er skinhelgi.

Að því er varðar ágætar athugasemdir hv. þingmanns um kynbundið ofbeldi og klámvæðingu þá vil ég segja að hv. þingmaður ætti að taka sér góðan nætursvefn og koma hress og kátur til umræðu á morgun. Þá verður þetta rætt í þingsályktunartillögu sem lögð er fram af félagsmálaráðherra Samfylkingarinnar. Þar sér þessa stað. Hugsanlega þó ekki með jafnskýrum hætti og hv. þingmaður vill, vegna þess að hann sér ekkert nægilega skýrt eins og kemur fram í umræðu okkar um kynbundinn launamun.