134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:17]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er freistandi að taka hér til umræðu þann árangur sem Reykjavíkurlistinn náði í því að jafna að hluta kynbundinn launamun starfsmanna borgarinnar. (Iðnrh.: Skammaðu þá Atla fyrir kjaftháttinn.) Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra kærlega fyrir að eigna öðrum en fyrsta og fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkurlistans, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hæstv. utanríkisráðherra, þau verk. Satt best að segja hefur mér þótt svolítið skorta á að menn gættu þess að þar var ekki einhver einn einstaklingur við stjórnvölinn þegar að þeim málum kom. (Iðnrh.: Það var líka Steinunn Valdís.) Það náðist ekki allt þar fram sem menn vildu en menn þurfa ekki að sætta sig við það fyrir fram að ná ekki fullum árangri.

Ég hygg að um það getum við nú verið sammála ef við leggjumst á árar að setja okkur metnaðarfullt markmið og reyna að ná því, ekki gefa fyrir fram afslátt á hlutum.

En hér er til umræðu, virðulegi forseti, frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem miðar að því að atvinnutekjur ellilífeyrisþega og vistmanna sem eru 70 ára og eldri skerði ekki lífeyrisgreiðslur til þeirra. Það er vel. En það er ákveðið hænufet sem hér er um að ræða.

Það var virkilegt fagnaðarefni að í kosningabaráttunni og sérstaklega undir lok hennar var kastljósi beint að stöðu aldraðra og öryrkja. Það var kannski ekki síst fyrir mikla vinnu samtaka þeirra sem það tókst að gera málefni og stöðu þessara hópa, sem eru svo sannarlega illa settir í samfélagi okkar, sýnilega og að átakapunkti í kosningabaráttunni.

Staðreyndin er auðvitað sú að í almannatryggingakerfinu okkar eru skerðingarnar allt of miklar og lífeyririnn sjálfur er einfaldlega of lágur. Í könnun sem félagsmálaráðuneytið, samtök öryrkja og eldri borgara, félagsmálasviðið hjá Reykjavíkurborg og Gallup stóðu að á síðasta ári kom í ljós að 24% aldraðra og öryrkja höfðu í fyrra, á árinu 2006, innan við 80 þús. kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur. Það voru 40% sem bættust við þegar 110 þús. kr. ráðstöfunarmarkið er skoðað sem segir okkur að 65% aldraðra og öryrkja höfðu innan við 110 þús. kr. í ráðstöfunartekjur á síðasta ári. Þetta er auðvitað með bullandi skerðingum og skattlagningu eins og við þekkjum og skerðingum vegna tekna maka. En lífeyririnn er einfaldlega of lágur eins og ég nefndi áðan.

Það var því eðlilegt og gott og sjálfsagt að umræða um þetta mikla óréttlæti skilaði sér inn í stjórnarsáttmála nýviðtekinnar ríkisstjórnar. Ég hygg að hvaða flokkar sem hefðu skipað nýja ríkisstjórn hefðu gert það.

Orðalag í stjórnarsáttmálanum sem varðar bættan hag aldraðra og öryrkja, eins og þar segir, gefur líka vissulega tilefni til væntinga og bjartsýni. Það er miður að þetta frumvarp hér gerir lítið annað en að endurtaka þau fyrirheit sem þar eru sett. Í stjórnarsáttmálanum segir m.a., með leyfi forseta:

„Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin sem og skerðing tryggingabóta vegna tekna maka.“

Það er ekki aðeins að einungis hluti af þessari málsgrein um bættan hag aldraðra og öryrkja sé lagður hér fram í frumvarpsformi, heldur er það aðeins hluti af þessari setningu sem er hér í frumvarpsformi. Hér er ekkert að finna um seinni hluta setningarinnar sem og skerðingu tryggingabóta vegna tekna maka.

Það er í þessu sem vonbrigðin eru fólgin með þetta mál sem og tvö önnur atriði sem hafa komið hér til umræðu í dag, annars vegar er ekkert horft á þann stóra hóp 67–70 ára sem er þó sá hópur sem hefur hvað mesta möguleika á að afla sér tekna. Það er ekki minnst á hann í þessu frumvarpi. Og það sem verra er, það er ekki litið til annarra lífeyrisþega en aldraðra. Það er sem sagt horft fram hjá atvinnutekjum öryrkja í þessu efni nema þá þeirra sem orðnir eru 70 ára gamlir og flokkast þá ekki lengur sem öryrkjar, því miður, heldur sem aldraðir og tapa tekjum við hækkaðan aldur.

Þetta veldur, virðulegi forseti, virkilegum vonbrigðum. Menn hafa hins vegar auðvitað bent á það hér að fagna beri hverju skrefi sem tekið er í rétta átt. Fyrirheitin eru þó í engu samræmi við það sem hér liggur fyrir. Og ræðurnar sem hv. stjórnarliðar hafa flutt í dag hafa þess vegna allar verið inn í framtíðina og hafa lítið dvalið við þetta skref sem hér er verið að taka.

Mig langar, virðulegi forseti, til að fara aðeins yfir stefnu okkar vinstri grænna í málefnum aldraðra og öryrkja. Stefna Sjálfstæðisflokksins var rakin hér í langan tíma í dag sem og „afrekalisti“ fráfarandi ríkisstjórnar síðustu fjögur árin. Mig langar aðeins til að vekja athygli á því að grunnþátturinn í stefnu okkar vinstri grænna varðandi aldraða er að hækka grunnlífeyrinn og tekjutrygginguna og koma á afkomutryggingu. Við viljum bæta félagslega stöðu og lífsgæði bæði öryrkja og eldri borgara með því að auka þátttöku þeirra á vinnumarkaði án þess að bætur skerðist og við viljum hækka frítekjumarkið þannig að menn geti haft tekjur upp á 75–100 þús. kr. á mánuði áður en tekjutrygging fer að skerðast.

Það er grunnatriði í stefnu okkar að afnema skerðingar lífeyrisgreiðslna vegna tekna maka og allar skerðingar vegna tekna öryrkja. Enn fremur leggjum við vinstri græn mikla áherslu á það að tryggja öryrkjum óskert réttindi eftir 67 ára aldur. Við leggjum líka mjög mikla áherslu á sveigjanleg starfslok og eins og ég nefndi fyrr í dag í andsvari hefur lagasetning sem þessi mikil áhrif út í samfélagið. Þess vegna er svo mikilvægt að horfa til þess að hafa þau áhrif jákvæð og víðtæk, að vera ekki að sortera út eins og hér er með þrengingu niður í smæsta mögulega hóp sem hugsast getur. Við þurfum að horfa til öryrkjanna allra þegar við erum að tala um þessar skerðingar og við þurfum að horfa á aldurinn 67 ára til sjötugs.

Rannsókn hagfræðideildar Háskólans á Bifröst hefur sýnt fram á að skerðingar í bótakerfinu skerða ekki aðeins möguleika aldraðra og öryrkja, þ.e. lífeyrisþega, til tekjuöflunar og skerða ekki einungis tekjur einstaklinganna sem um er að ræða heldur einnig tekjur ríkissjóðs með því að þjóðhagsleg áhrif aukinna tekna og aukið vinnuframlagi aldraðra og öryrkja verður til þess að auka beinar og óbeinar skatttekjur. Þetta er mjög athyglisverð rannsókn sem kynnt var alveg í lok kosningabaráttunnar og væri vert að hv. heilbrigðisnefnd tæki til skoðunar þegar metið er hversu dýrt hvert skref er í þessum efnum. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis sem fylgir þessu frumvarpi er ekki tekið tillit til þess að lækkun og afnám skerðinga í lífeyriskerfinu geti einmitt haft þau áhrif að auka tekjur ríkissjóðs. Það er þó kannski ekki aðalatriðið heldur fyrst og fremst það að hægt er að auka lífsgæði og tekjur manna með því að leyfa þeim að vinna án þess að taka það allt í skerðingar til baka.

Ég vænti þess að þetta frumvarp fái góðan byr í hv. heilbrigðisnefnd. Það er mikilvægt að horfa til þess að þetta er bara eitt lítið skref og við munum væntanlega, fulltrúar Vinstri grænna í heilbrigðisnefndinni, leita leiða til þess að stækka þann hóp sem hér um ræðir og þá með þeim rökum sem ég nefndi áðan, að þetta getur gefið tekjur í aðra hönd fyrir ríkissjóð. Þetta er ekki einungis útgjaldaauki.