134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:28]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hvernig ræður hv. þingmanna VG verða hér eftir fjögur ár þegar búið verður að hrinda þessu í framkvæmd. Gefum okkur að það takist ekki. (Gripið fram í.) Já, akkúrat. Gefum okkur að það takist ekki. Ef svo fer hefur ríkisstjórnin lagt mælikvarða sem hún verður mæld á. Þá getur hv. þingmaður komið hér og dansað villtan stríðsdans og þess vegna dansað á höfuðleðrum okkar sem erum hér í ríkisstjórn ef okkur hefur ekki tekist að uppfylla þetta. En má ég í fyllstu vinsemd, herra forseti, biðja hv. þingmann aðeins um að taka stríðar á beislinu og stöðva gæðing sinn áður en nokkur reynsla er komin á það. Á þetta að verða stjórnarandstaðan hér næstu fjögur árin — eigum við að segja næsta árið — að vaskir hv. þingmenn komi hingað og kvarti og kveini yfir því að það sem við segjum að við ætlum að hrinda í framkvæmd á fjögurra ára tímabili sé ekki búið að gera?

Hv. þingmaður veit að sá sem hér talar hefur töluverða reynslu af því að vera í stjórnarandstöðu. Hann hefur 12 ára reynslu af því. Menn þurfa úthald og menn þurfa líka aðeins að sýna ábyrgð og hafa hemil á sjálfum sér í málflutningi ef þeir ætla að renna skeiðið á enda og þá má ekki þrjóta örendið áður en þangað er komið.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og Atli Gíslason sögðu hér í dag. Ég er algjörlega sammála þeim um að ekki hefur verið farið nægilega vel að öldruðum og öryrkjum í þessu samfélagi. Ég hef haldið margar ræður um það. Við höfum í Samfylkingunni lagt fram ítarlega stefnu um það mál. Hv. þingmaður gladdist yfir því að ég skyldi þó gefa öðrum en bara borgarfulltrúum Samfylkingarinnar, sem nú er, heiðurinn af því að á sex árum tókst að minnka kynbundinn launamun um helming úti í Ráðhúsi. (AtlG: Um einn þriðja.)

Ég er algjörlega klár á því að það var samstillt átak allra þeirra sem í þeirri borgarstjórn sátu. Ég er ekkert að reyna að stela rjómanum af því sameiginlega afreki sem þar var unnið. Jafnvel þótt hv. þm. Atli Gíslason sé vanþakklátur gagnvart Reykjavíkurlistanum og telji að hann hafi ekki staðið nægilega vel að verki er þetta samt sem áður eitt af því sem Reykjavíkurlistinn getur alltaf litið til sem glæsilegs minnisvarða um feril sinn úti í Ráðhúsi. Það er alveg klárt.

Þess vegna er ég pínkulítið spældur, svo ég sé ærlegur, út í hv. þm. Atla Gíslason fyrir að telja þetta ekki merkilegan áfanga. Hann var merkilegur áfangi, alveg eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur réttilega sagt hér. Ef það var merkilegur áfangi úti í Ráðhúsi hlýtur hann líka að verða jafnmerkilegur í Stjórnarráðinu ef tekst að vinna hann. Takið eftir því.

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þingmaður taki eftir því að með þessu er auðvitað verið að gefa dálítið stórt loforð sem sýnir það að þessi ríkisstjórn er reiðubúin til að leggja sig töluvert undir í þessu máli. Það er vert að sýna og færa hv. þingmönnum heim sanninn um að hugur fylgi máli.

Ég er svo algjörlega hjartanlega ósammála hv. þm. Atla Gíslasyni um að þetta sé loðið orðalag. Það er algjörlega fráleitt að halda því fram. Hv. þingmaður getur drepið niður tám sínum hér og hvar í þessari stefnuyfirlýsingu og sagt að hér mætti og þarna mætti hafa verið fastara að orði kveðið og ég er honum sammála um það. En í þessu efni get ég komið hérna alveg hiklaust og sagt: Ég er stoltur af þessu ákvæði. Hvers vegna? Vegna þess að ég hef líka ákveðna arfleifð að verja. Það er arfleifð Reykjavíkurlistans. Það sem við erum að leggja til hérna og segja að við ætlum að gera er að nota sömu vinnubrögð og voru notuð í Ráðhúsinu til að ná þessu í gegn. Hverjum er það falið, herra forseti? Það er falið hæstv. félagsmálaráðherra. Þetta fellur undir hennar málaflokk, hennar málasvið. Ég veit að við hv. þm. Atli Gíslason getum við sammála um að hennar tími sé kominn.

Herra forseti. Því hóf ég þessa litlu ræðu mína um Ráðhúsið að ég hnaut um það í máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að hún var að velta því fyrir sér hverjir það væru sem hefðu komið þessum málum á dagskrá í kosningabaráttunni. Með leyfi og í fullri vinsemd, herra forseti, var það Samfylkingin sem lagði málefni aldraðra undir í kosningabaráttunni og það var hennar harða áhersla, auðvitað annarra flokka líka, en það var áhersla Samfylkingarinnar á þessi mál sem gerði það að verkum og það hversu fastheldin hún var á þessi félagslegu markmið sín. Að lokum var þetta ekki bara undiralda, heldur brimalda kosningabaráttunnar. Það er nú bara málið.

Svo koma hv. þingmenn og segja að það sé ekki nægilega skýrt að orði kveðið um t.d. aldraða. Hvað er það í þessu samfélagi sem við getum sagt að þurfi hvað harðast og stríðast að bæta í dag? Er það ekki að berjast fyrir því að komið verði upp hjúkrunarrýmum til að bæta úr neyð þeirra 400 sem bíða svo sárlega eftir rými á hjúkrunarheimilum? Og hvað segir í þessari stefnuyfirlýsingu? Þar segir að það eigi að hraða uppbyggingu 400 hjúkrunarrýma fyrir aldraða og fjölga einbýlum. Hv. þm. Atli Gíslason þekkir manna best hvað er brot á mannréttindum og hvað ekki og fáir hafa flutt hér snjallari ræður um það en hann. Hann hlýtur að vera mér sammála um að það er brot á mannréttindum eins og við skiljum þau í dag og höfum reynt að virða, sá aðbúnaður sem öldruðum einstaklingum er boðið upp á í dag í fjölbýlunum þar sem mönnum er kannski hrúgað saman með fólki sem það þekkir alls ekki neitt.

Ég veit að hv. þingmaður hlýtur þess vegna, ef hann metur þetta nú yfirvegað og rólega eins og ég veit að hann getur, að taka undir með mér að það hlýtur að vera áfangi þegar ríkisstjórn segir þetta. Við vitum sömuleiðis að sumir þeirra sem eru á þessum biðlistum og þeir sem eru í sárustu neyð hafa kannski enga fjölskyldu til að liðsinna sér meðan á biðinni stendur. Þetta þekkjum við kannski af eigin raun.

Það segir í þessari stefnuyfirlýsingu að sólarhringsþjónusta verði efld og einstaklingsmiðuð þjónusta aukin. Þessu er beinlínis beint að því að létta undir með þeim sem bíða eftir því að þeim áföngum sem er lofað í stefnuyfirlýsingunni verði náð. Er það loðið? Það get ég ekki falllist á með hv. þingmönnum þótt mér heyrist það á máli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Svo öllu sé til haga haldið fór hún líka jákvæðum orðum um ýmsa parta hérna.

Ég er algjörlega sammála hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að það beri að stefna að því í framtíðinni og auðvitað sem allra fyrst að gera þeim sem vilja vinna og eru komnir á aldur það mögulegt án þess að skerða það sem þeir hafa úr að spila. Það er alveg rétt hjá henni að fyrir liggja rannsóknir sem komu fram undir lok kosningabaráttunnar sem benda til þess að það sé þjóðhagslega hagkvæmt. Það hafa allir hag af því. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að stefna að samfélagi valfrelsis þar sem fólk hefur val, fólk hafi val um það hvar það vill búa þegar það er orðið gamalt, t.d. á hjúkrunarheimilum, eða ef það vill búa heima hjá sér á samfélagið að hjálpa því til þess að hrinda því vali í framkvæmd. Ef fólk vill vinna á samfélagið ekki að koma í veg fyrir það.

Sérstaklega er það brýnt á tímum eins og okkar þar sem er skortur á vinnuafli og við vitum að vinnuframlag aldraðra og margvísleg reynsla þeirra á ýmsum sviðum getur uppfyllt ákveðnar þarfir í samfélagi sem er að springa af þenslu og hefur verið að gera það síðustu árin. Hvernig sem menn líta á þetta er það jákvætt.

Samt sem áður er fólk sem hefur engan hag af þessu. Við hjálpum ekki þeim sem búa við varanlega skerta starfsgetu með því að hrinda burt einhverjum skerðingum sem tengjast vinnuframlagi þeirra. Við verðum að gera það með öðrum hætti. Hv. þingmaður gat um aðferð til þess áðan sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt til. En það eru ýmsar leiðir að því marki. Hv. þingmaður gæti ábyggilega rifið sig niður í rass yfir því að ekki sé tekið nægilega skýrt á því í þessari stefnuyfirlýsingu. En það er fyrirheit þarna sem stjórnarflokkarnir eru sammála um og þar segir svo, með leyfi forseta:

„Jafnframt verði komið til móts við þann hóp sem er með varanlega skerta starfsgetu.“

Ég skal trúa hv. þingmanni og herra forseta fyrir því af hverju þetta stendur svona. Vegna þess að það er tæknilegum örðugleikum háð að ná utan um þennan hóp og finna þá lausn sem beinlínis kemur honum til góða. En ég veit að það er góður vilji meðal þingmanna og þeirra sem sitja í heilbrigðisnefnd til þess að koma til liðs við ríkisstjórnina í þessu máli. Þeir geta lagt fram góðar hugmyndir um þetta og ég er viss um að það verður vel á þá hlustað. Þetta er eitt af viðfangsefnunum sem ríkisstjórnin glímir við. Hún vill hjálpa þessum hópi og hún ætlar sér að finna þá bestu leið sem hægt er að finna til þess. Ég veit að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og örugglega hinn velviljaði hv. þm. Atli Gíslason munu ekki liggja á liði sínu eða spara atgervi sitt til að benda á réttar leiðir til þess.

Að lokum, herra forseti, vil ég bara segja eins og ég hóf mína ræðu á að ég er maður sem er búinn að sjá svo margt og reyna svo margt í stjórnmálum að ég er hættur að hneykslast á pólitískum samferðamönnum mínum. Það stappaði þó nærri því að ég gerði það þegar ég hlustaði á hv. þm. Atla Gíslason koma hér fyrr í þessari umræðu og hneykslast á því hvað orðalagið um að útrýma kynbundnum launamun væri loðið í þessari stefnuyfirlýsingu. Ef eitthvað er skýrt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er það einmitt þetta ákvæði. Þar segjum við beinlínis að við ætlum að nota þær aðferðir sem Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir og Samfylkingin hafa notað úti í Ráðhúsi með svo frábærum árangri að á sex árum tókst að minnka kynbundinn launamun um helming. Ég heyri að vísu í frammíköllum hjá hv. þm. Atla Gíslasyni að hann kallar bara þriðjung. Hann verður þá að eiga það við félaga sína í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem hafa haldið öðru fram.