134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:47]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leyfum okkur að gagnrýna að í frumvarpinu felist nokkuð litlar kjarabætur til aldraðra og öryrkja og við leyfum okkur að gagnrýna að frumvarpinu fylgja nokkur loforð inn í framtíðina.

En verkin tala. Í 16 ára ríkisstjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með fjármálin og haft fjármálaráðuneytið. Framsóknarflokkurinn sat í ríkisstjórn í tólf ár og var með heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytið en sannarlega hafa þeir ráðherrar ekki getað farið umfram rammafjárlög og því má segja að með Sjálfstæðisflokkinn áfram í því föðurlega hlutverki að halda utan um fjárlögin megi búast við því að þar verði áfram sami ramminn.

Það er hægt að vísa til verka fyrrverandi ríkisstjórnar. Hún var treg til kjara- og réttarbóta fyrir öryrkja og aldraða. Þessir stóru hópar hafa hvað eftir annað þurft að sækja rétt sinn fyrir dómstóla til að fá eðlilegar réttar- og kjarabætur. Á síðasta kjörtímabili komu bæði lagabreytingar og loforð um umbætur í framtíðinni. Það gerðist á lokaspretti síðustu ríkisstjórnar inn í kosningabaráttuna þar sem þessir stóru hópar fengu kjarabætur. Dregið var úr tekjuskerðingu en kjarabæturnar voru mest loforð inn í framtíðina. Við leyfum okkur því að (Forseti hringir.) hafa efasemdir um þessi loforð.