134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:59]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alltaf ærlegur við þingmenn. Ég skal bara segja hv. þingmanni hvað pirrar mig. Það er tvennt. Það pirrar mig að þingmenn VG komi hingað og geri athugasemdir við fas mitt. Ég er bara eins og ég er. Mér hefur ekki tekist að bæta mitt fas og ég ætla ekkert að hætta að vera þannig. Á mæltu máli þýðir það að ef ég finn hjá mér hvöt til þess að rífa kjaft, verða hér með kjaftbrúk við VG og veita þeim, eins og hv. þingmaður sagði, stjórnarandstöðu, þá bara geri ég það. Mér er alveg sama hvað hv. þingmaður segir um það.

Hitt sem pirraði mig var að hv. þingmaður, sem mér hefur fundist með málefnalegri mönnum sem hingað hefur rekið á fjörur Alþingis, kom í ræðu sinni eftir klukkan 18 og sagði að það væri óskýrt sem ríkisstjórnin segði um launamun kynjanna. En þar eru sett mælanleg takmörk. Það er ekki hægt að tala skýrar. Ég skammaðist út í hv. þingmann og þá kom hann og ásakaði mig fyrir metnaðarleysi þótt það liggi fyrir að hin mælanlegu takmörk eru metnaðarfyllri en þau sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð og félagar mínir í Samfylkingunni settu sér (Forseti hringir.) úti í Ráðhúsi.

Herra forseti. Ég er stjórnmálamaður lausna. Ég vil finna raunhæfar lausnir og ég er ekki í (Forseti hringir.) háloftunum eins og hv. þingmaður.