134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

orkusala til álvers í Helguvík.

[10:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þekki þetta mál nokkuð eins og margir sem hér eru inni og tel að það væri ágætt við þessa umræðu aðeins að rifja upp sögu málsins. Hana þekkir hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ágætlega af öðrum vettvangi.

Hér er um það að ræða að farið var út í það af Orkuveitu Reykjavíkur í tíð R-listans — og þekkja Vinstri grænir það vel — að fara út í stóriðju. Þá var nýtt orka á þessu sama svæði og um ræðir. Hér hefur verið gerður nýr samningur, það er alveg hárrétt hjá hæstv. umhverfisráðherra að það á eftir að fara í gegnum öll þau lögformlegu möt sem við þekkjum í því efni. Hins vegar er þetta af hálfu Reykvíkinga og eigenda fyrirtækisins afskaplega hagstæður samningur eins og komið hefur fram. Ef við berum hann saman við fyrsta samninginn til stóriðju sem m.a. vinstri grænir tóku þátt í að samþykkja á sínum tíma er þetta umtalsverð hækkun, bæði á stuðlum og síðan hefur álverðið hækkað aldeilis eins og menn þekkja. Ég held að það sé mikilvægt að því sé til haga haldið.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra umhverfismála að það eru margir fyrirvarar á þessu eins og þegar menn ganga frá málum hér á Íslandi. Það er hins vegar nokkuð athyglisvert ef menn telja, eins og hér kom fram í umræðunni hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, að þessi orkuöflun sé ekki sjálfbær. Svo við höfum það alveg á hreinu, ef það er viðhorf manna höfum við Íslendingar svo sannarlega verið að blekkja umheiminn. (Gripið fram í.) Þetta eru stórar fréttir, ekki bara fyrir okkur Íslendinga heldur fyrir allan heiminn og gera það að verkum að barátta okkar við gróðurhúsalofttegundirnar hefur beðið mikinn hnekki (Forseti hringir.) ef það er ekki sjálfbær þróun að nýta jarðhitann sem allir hafa talið (Forseti hringir.) sem hafa skoðað það fram til þessa.