134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:12]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að nota tækifærið og bjóða hæstv. ráðherra velkomna til starfa á ný í félagsmálaráðuneytinu og óska henni velfarnaðar í þágu þjóðarinnar og þeirra sem eiga undir því að vel gangi í þessu ráðuneyti.

Búið er að gera grein fyrir aðgerðaáætluninni og ég fagna henni. Hér er gerð grein fyrir ýmsu sem hefur verið í vinnslu og er komið í þessa stefnu, ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál og fagna því að það sé hingað komið.

Það er auðvitað mikilvægt að fá fram frekari upplýsingar um hvað er áætlað að þessi aðgerðaáætlun kosti og hvort ráðherra telji að fjármunir muni fást til að fjármagna ýmislegt sem hér er kveðið á um. Ég hef smáreynslu af því hvernig gengur að fá fjármuni til ýmissa mála á þessum vettvangi þannig að mér þætti fróðlegt að heyra mat hæstv. ráðherra á því hvernig það muni ganga. Fjármunir til ýmissa verka og ýmissa mála sem koma fram í þessari aðgerðaáætlun eru auðvitað lykilatriði. Við höfum svo sem séð í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og annað í umræðunni að það eru ýmis fyrirheit uppi í velferðarmálum og ýmsum málum og ég hygg að ég sé ekki einn um það að bíða spenntur eftir því hvernig ríkisstjórninni gangi að hrinda þessu öllu saman í framkvæmd, hvernig ríkisstjórninni muni ganga að finna fjármuni í þetta til að framfylgja því sem lagt hefur verið upp með.

Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra í fyrsta lagi hvort hún hafi einhverja hugmynd um hvað þessi aðgerðaáætlun muni hugsanlega kosta og í öðru lagi hvort hún telji raunhæft að fjármunir fáist til þessara mála á kjörtímabilinu í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er í efnahagsmálum og í ljósi þess hvernig við sjáum fyrir okkur hlutina í þeim efnum.