134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:16]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af því sem hæstv. ráðherra ræddi um samstarf þá mun ég að sjálfsögðu leggja mig fram um að eiga gott samstarf við hana í sínum störfum á sama hátt og ég get upplýst að við áttum mjög gott samstarf meðan ég var í sæti hennar og ég þakka fyrir það.

Ég held að mikilvægt sé að sem fyrst liggi fyrir einhver tímaplön um það hvernig innleiða eigi þessa aðgerðaáætlun og eins hvernig þetta verður fjármagnað. Við stjórnarandstæðingar munum fylgjast mjög grannt með framgöngu þessa máls. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að hér er um mikilvægt mál að ræða, ég hygg að við séum öll sammála um að þessi málaflokkur er mikilvægur og beri auðvitað að leggja á hann áherslu.

Ég vil bara lýsa því yfir fyrir mitt leyti og a.m.k. okkar framsóknarmanna í stjórnarandstöðunni að við munum fylgjast mjög grannt með framgangi þessara mála og munum veita ríkisstjórninni og hæstv. félagsmálaráðherra mjög stíft aðhald í því að þetta gangi fram. Ég er sammála hæstv. ráðherra að svona mál mega ekki bara vera pappírsplagg, þetta eru mál sem þurfa að ná til framkvæmda. Ég endurtek að við munum fylgjast mjög grannt með því að þetta gangi eftir, því að við erum sammála því að þessi mál eru mikilvæg og við viljum sjá þau koma til framkvæmda. Ég ítreka að við höfum verið að vinna að þessum málum í nokkur ár, ekki bara í félagsmálaráðuneytinu heldur í fleiri ráðuneytum, og því munum við styðja það að þessi mál öll gangi hratt og vel fram og hvetja hæstv. félagsmálaráðherra og aðra í ríkisstjórninni til dáða með því aðhaldi sem við munum veita í stjórnarandstöðu.