134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:18]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að hv. þingmaður og stjórnarandstaðan öll mun halda okkur við efnið og veita okkur aðhald hvað það varðar að fylgja eftir þessari áætlun og ég fagna því. Ég hefði auðvitað gert slíkt hið sama í sporum stjórnarandstöðunnar þannig að ég geri mér fyllilega ljóst að stjórnarandstaðan mun fylgja þessum málum fast eftir og það er vel.

Eins og ég nefndi á samráðsvettvangur fimm ráðuneyta, sem mun verða komið á fót mjög fljótlega, að hafa yfirsýn og samræmingu með allri framkvæmd og vera með eftirfylgni í málinu. Á þeim vettvangi verður vafalaust rætt um tímaáætlanir í þessari aðgerðaáætlun og hvernig framkvæmdum vindur fram. Framkvæmdin verður síðan á vettvangi hvers fagráðuneytis fyrir sig.

Eins og ég sagði áðan er það ásetningur okkar að þessi framkvæmdaáætlun komi að fullu til framkvæmda á kjörtímabilinu. Það er sameiginlegur skilningur í ríkisstjórninni að aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna eigi að vera forgangsverkefni á sviði velferðar í landinu. Þessi málaflokkur hefur dregist aftur úr og honum hefur ekki verið sinnt sem skyldi í stjórnsýslunni. Allar Norðurlandaþjóðirnar hafa fyrir mörgum áratugum komið á aðgerðaáætlun í þágu barna og eru komnar miklu lengra hvað það varðar að bæta stöðu, hag og velferð barna í sínu samfélagi og þar höfum við fordæmi til að vinna eftir. Ég er alveg sannfærð um það og það eru engar efasemdir í mínum huga að ríkisstjórnin öll mun framfylgja þessari áætlun eftir bestu getu. Henni verður auðvitað framfylgt þannig að hún rúmist innan þeirra markmiða sem við setjum okkur í efnahagsmálum en það svigrúm sem við höfum til að bæta þjónustu á sviði velferðar verður í þágu barna, fjölskyldna og lífeyrisþega.