134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:20]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. félagsmálaráðherra hjartanlega til hamingju með þessa aðgerðaáætlun, hún er metnaðarfull. Það er vissulega mikilvægt þegar ný ríkisstjórn tekur til starfa að hún hafi skýra stefnu og sýni fram á hvaða markmiðum hún ætlar að ná einkum ef fyrir liggur aðgerðaáætlun sem hægt er að byggja á tiltekna áfanga annars vegar og hins vegar til að meta árangurinn eftir. Ég lýsi fyllsta stuðningi við markmið þessarar áætlunar sem er að styrkja stöðu barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi og ég heiti stuðningi Vinstri grænna við allar þær góðu fyrirætlanir sem hér er að finna og vænti þess og vona að þær megi sem fyrst komast í framkvæmd.

Ég er ekki að draga úr góðum vilja ríkisstjórnarinnar þegar ég segi að þessi áætlun verður seint að veruleika ef ekki er tekið á og farið í víðtækar aðgerðir á sveitarstjórnarstiginu og fjármunir fluttir til sveitarfélaganna. Ég sakna þess að ekki sé skýrt ákvæði í I. kafla þessarar ályktunartillögu um formlegt samráð við sveitarfélögin um framkvæmd áætlunarinnar vegna þess, virðulegi forseti, að það er varla sá þáttur í áætluninni sem kemur ekki inn á starfsemi sveitarfélaga með einhverjum hætti. Að mínu viti þarf að viðurkenna hlut þeirra formlega í aðgerðaáætluninni og ætla til þess fé og mannafla að tryggja framgang hennar og einnig að börnum og ungmennum verði ekki mismunað eftir búsetu við framkvæmd áætlunarinnar þannig að foreldrar hvar sem er á landinu geti treyst því að þær aðgerðir sem hér er talað um að hrinda í framkvæmd muni ekki sigla fram hjá börnum þeirra vegna þess að við vitum að sveitarfélögin eru afskaplega misvel í stakk búin til að sinna þjónustunni. Þau hafa einfaldlega ekki fjármuni til þess að gera það á sama hátt öll. Við vitum að þegar búið er að greina barn er það sent til sveitarfélagsins og þegar barn er útskrifað af BUGL er það sent til sveitarfélagsins. Þegar fylgja þarf eftir meðferð og greiningu þarf að senda barnið á ábyrgð sveitarfélagsins, leikskólans og skólans. Þetta eru verkefni sveitarfélaga sem hljóta að fá fjármagn sérstaklega í tengslum við þessa aðgerðaáætlun.

Það er ljóst, virðulegi forseti, að sveitarfélögin hafa fullan vilja til að efla nærþjónustuna, til að styrkja þjónustu sína, til að bæta skólana og efla forvarnir, bjóða ókeypis foreldrafræðslu, jafnvel ókeypis leikskólavist eins og við þekkjum og hollar og ódýrar skólamáltíðir. Þau hafa bara ekki haft til þess fjárhagslegt bolmagn og þar er í rauninni gat að mínu viti í þessari áætlun. Ég er ekki að tala um peningana, þeir hljóta að verða að fylgja en það vantar ákvæði í I. kaflann um formlegt samráð sem ég hvet til að sett verði í 1. gr.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég minna á að til að þessi metnaðarfulla aðgerðaáætlun komist til framkvæmda þarf að hækka laun umönnunarstétta og búa betur að þessum hefðbundnu kvennastörfum í umönnunargeiranum, í leikskólum og í skólum. Ég hlýt vegna þeirra fregna sem komu inn í þingsal í gær um stórfellda hækkun á launum seðlabankastjóra, um 200 þús. kr. á mánuði, að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort þau forgangsmál sem hún nefndi í sinni ræðu sem eru að bæta kjör lífeyrisþega og barna endurspeglist í því. Ég geri mér grein fyrir að í Seðlabankanum eru ekki börn við stjórnvölinn en kannski er þar verið að styrkja kjör lífeyrisþega. Ég vil sem sagt spyrja: Er þetta dæmi um forganginn, hæstv. ráðherra?

Í þriðja lagi finnst mér ekki nógu vel tekið á þeirri mismunun sem er í dag vegna efnahags og búsetu. Það er staðreynd að það er fátækt á Íslandi og það var staðfest í könnunum fyrir síðustu kosningar með samanburði við nálæg lönd að nokkur þúsund börn, talan 5.300 börn var nefnd einhvers staðar, búa hér undir fátæktarmörkum. Þetta er skammarblettur á íslensku samfélagi og eins og ég fagna því að hér eru áform um hækkun barnabóta, lengingu fæðingarorlofs, niðurgreiðslu á bókum í framhaldsskólum og auknum niðurgreiðslum til tannlækninga, allt eru þetta brýn mál sem geta jafnað þennan efnahagslega mismun, þá sakna ég þess að hér sé ekki fjallað um ókeypis leikskóla, ókeypis skólamáltíðir, ókeypis íþrótta- og listnámskeið í tómstundum og það sé viðurkennt fullum fetum að bæta þurfi fjárhagsstöðuna beint með því að setja peninga í þessa þjónustu. Með þessu er ég ekki að segja að peningar bæti allt en könnun Félagsfræðingafélags Íslands sýndi hver áhrif fátækt hefur á andlega og líkamlega líðan barna. Þar kom í ljós að þau voru mjög margháttuð, bæði á andlega og líkamlega líðan. Börnunum svíður óréttlætið þegar þau líta í kringum sig. Í þingsályktunartillögunni er talað um veikan fjárhag, við skulum tala skýrt, við skulum tala um fátækt.

Virðulegi forseti. Það styttist sá tími sem ég hef. Ég hafði hugsað mér að tala nokkuð almennt um þessa þingsályktunartillögu og hef gert það en á þeim stutta tíma sem eftir er vil ég þó tæpa á tveimur atriðum eða við skulum segja að það verði bara eitt. Það er vissulega mikilvægt að vinna á biðlistunum, bæði hjá BUGL og Greiningarstöð ríkisins, en ég vara eindregið við þeim hugmyndum sem þarna eru settar fram um að árangurstengja starf tengt geðvernd og geðröskunum. Það er ekki hægt að mæla árangur í fjölda útskrifta eins og að skúra gólf eða skipta um peru. Þetta eru flókin mál sem oft taka verulega langan tíma og þurfa fjölþætta nálgun, m.a. inn í fjölskyldur barnanna, skólann og allt nærumhverfið. Ég vara við því. Ég hefði viljað fara frekar í einstaka þætti en ég á von á að það verði gert í umræðunni á eftir. (Forseti hringir.) Ég ítreka heillaóskir með þessa áætlun og ég vona að hún nái fram að ganga öll.