134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:43]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér kemur það á óvart ef hv. þingmaður sem er einn af stjórnarliðum lýsir því hér yfir að hann ætli ekki að styðja þessa aðgerðaáætlun. Það kemur mér á óvart vegna þess að ég hafði ekki heyrt um neina andstöðu hjá stjórnarliðum við henni.

Ég deili því auðvitað með hv. þingmanni að ríkisstjórnin á að sýna ábyrgð í efnahagsmálum. Við deilum ekkert um það og við munum auðvitað leggja okkar af mörkum í því.

En ég vil spyrja hv. þingmann, þar sem hann hefur staðið að áætlun í vegamálum, áætlun í flugmálum þar sem verið er að leggja línurnar um áætlanagerð til framtíðar, hvort hann telji ekki að þurfi að leggja líka framkvæmdaáætlun í aðgerðaáætlunarmálum til barna. Við erum að tala um 84 þúsund börn á aldrinum 0 til 18 ára. Við þurfum að hafa einhverja áætlun um það hvernig við ætlum að búa í haginn fyrir börnin og barnafjölskyldur alveg eins og við leggjum áætlanir varðandi vegamálin, áætlanir varðandi flugmálin, hvernig við ætlum að taka á því til frambúðar.

Þess vegna kemur þetta mér á óvart og ég hefði frekar talið að hv. þingmaður færi að agnúast út í Seðlabankann sem veitir okkur aðhald og talar til okkar í þeim tón að við eigum að sýna aðhald og sparnað í útgjöldum, þegar bankastjóri Seðlabankans gengur fram og skammtar sér laun, upp á 200 þús. En hv. þingmaður minntist ekkert á það.

En það kemur mér á óvart að hv. þingmaður skuli lýsa þessu yfir og ég vona að hann breyti um skoðun eftir að hann hefur athugað þetta mál og finni að það er jafnmikilvægt að setja fram framkvæmdaráætlunaraðgerðir í málefnum barna og ungmenna og að setja fram áætlanagerð varðandi vega- og flugmálin sem við samþykktum á síðasta þingi að setja tugi milljarða í á næstu árum.