134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:45]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þóttist vita að það væri fullkomið upplýsingakerfi milli þingflokkanna þannig að upplýsingar væru gefnar um afgreiðslu mála, og í þingflokki Sjálfstæðisflokksins kom mjög skýrt fram við afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu að ég væri á móti henni. Það er eitthvað að upplýsingakerfinu milli stjórnarflokkanna sem þarf þá að passa upp á í framtíðinni.

Ég talaði mjög skýrt, virðulegi forseti, eða ég tel það. Ég hafði áhyggjur af því að röng skilaboð yrðu send út í þjóðfélagið með þessari áætlun. Ég talaði mjög skýrt. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði. Afleiðingin af því að við gefum röng skilaboð núna í upphafi þessarar stjórnarsamvinnu getur verið mjög afdrifarík.

Fyrir þessar kosningar las ég stefnuskrá Samfylkingarinnar í efnahagsmálum, mjög ágætt plagg undirskrifað af Jóni Sigurðssyni, þeim sem við fyrir vestan kennum við Félagsbakaríið. Hvað stendur í þessari stefnuskrá Samfylkingarinnar? Nákvæmlega það sem ég sagði áðan, þar er sagt að ábyrg stjórn efnahagsmála sé í reynd undirstaða velferðarsamfélagsins. Það er nákvæmlega þetta sem ég var að segja, ábyrg stjórn efnahagsmála. Ég trúi því og treysti að samstarfsflokkur okkar sé ábyrgur í efnahagsmálum. Þess vegna geng ég heill til þessa samstarfs.