134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:48]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn hefur það í hendi sér, tveir, þrír eða fjórir ráðherrar, tvö, þrjú eða fjögur ráðuneyti, að búa til aðgerðaáætlun, vinna saman og setja saman hvaða áætlun sem þau vilja. Þingsályktun hefur gildi. Þingsályktun er ályktun Alþingis sem ber að fara eftir. Þess vegna held ég að verið sé að þrýsta fram þessari þingsályktunartillögu. Það er gert til þess að binda hendur löggjafans við gerð næstu fjárlaga. Ég óttast mjög mikið þegar menn eru búnir að taka fram fyrir hendurnar á sjálfum sér, ef svo má að orði komast, með því að segja: Við ætlum að fá þetta og þetta og þetta, og við ætlum að hafa þetta og þetta og þetta, 36 atriði ómerkt peningum, 36 atriði, setjum þau fram.

Við segjum hvergi nokkurs staðar að við höfum efni á því. Við segjum hvergi nokkurs staðar að við ætlum að draga úr öðru í staðinn. Það fylgir ekkert plagg um það að við ætlum að draga úr kostnaði í utanríkismálum. Nei, það er ekkert plagg sem fylgir því sem hefði t.d. mátt fylgja. Það er engin nauð sem rekur okkur til að gera þetta. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar er alveg nægjanleg. Menn hafa ástæðu til að treysta henni og trúa. Það er engin ástæða til að setja fram þingsályktunartillögu í formi eins og þessu, enda eru engin fordæmi fyrir því.