134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:50]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga er útfærsla á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það þarf auðvitað að útfæra slíkar stefnuyfirlýsingar.

Ég minni líka hv. þingmann á að hér koma ýmsar þingsályktunartillögur inn í þingið þó að ekki fylgi þeim endilega mjög ítarleg gögn um það hvar eigi að draga saman eða hvernig eigi að veita peningana. Ég minni t.d. á samgönguáætlun. Ég hef ekki tekið eftir því að hv. þingmaður hafi talað svona þegar samgönguáætlun hefur komið hér inn, en hér erum við með áætlun um að bæta hag barna og ungmenna þar sem hefur hallað á þann hóp. Fjöldi barna bíður t.d. eftir þjónustu eins og ég nefndi áðan. Ýmislegt fleira gæti ég nefnt en ég ætla ekki að gera það í stuttu andsvari.

Ég bendi bara hv. þingmanni á að það er ekki síður mikilvægt að sinna þjónustu við börn og ungmenni en að byggja vegi þótt hvort tveggja sé mikilvægt.