134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:57]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur nú kynnt tillögu til þingsályktunar, aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna í okkar ágæta landi. Það er sérlega ánægjulegt að ný ríkisstjórn skuli strax í upphafi leggja áherslu á málefni ungmenna og eldri borgara sem undirstrikar vilja til að þessi mál njóti forgangs okkar sem að ríkisstjórninni stöndum.

Í framhaldi af skýrslum og könnunum liðinna missira, m.a. um fátækt barna, tannvernd og stöðu barnafjölskyldna, lagði Samfylkingin ríka áherslu á það í kosningabaráttunni að farið yrði ítarlega yfir stöðu barna í íslensku samfélagi og lagði fram aðgerðaáætlun í málaflokknum undir heitinu Unga Ísland . Við myndun nýrrar ríkisstjórnar náðist samkomulag um að leggja áherslu á þennan málaflokk og á ótrúlega skömmum tíma, undir öruggri stjórn hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur stjórnarflokkunum tekist að semja vandaða þingsályktunartillögu með ítarlegri aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna og um leið fundið leið til að tryggja framgang áætlunarinnar.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur skilmerkilega gert grein fyrir þeim rökum sem liggja að baki áætluninni. Þó að slík aðgerðaáætlun geti aldrei verið tæmandi treysti ég á að hér ríki sátt allra flokka um að koma þessari þingsályktunartillögu í gegnum þingið svo að samráðshópur þeirra fimm ráðuneyta sem getið er um í tillögunni geti sem fyrst hafið störf. Það eru einmitt meginrökin fyrir því að flytja þetta mál núna á sumarþinginu, þ.e. að slíkur samráðshópur þarf að hefja vinnu þannig að í ráðuneytunum hefjist nú þegar undirbúningur að lagafrumvörpum og tillögum um framkvæmd þessarar ályktunar. Það ætti að vera svar við athugasemdum hv. 8. þm. Norðvest., Einars Odds Kristjánssonar, við því af hverju þetta mál kemur fram núna.

Samráðshópurinn þarf síðan að hafa samráð við sveitarfélög og hagsmunahópa og félög ýmiss konar til þess að vinna að framgangi áætlunarinnar. Ríkisstjórnin þarf síðan að tryggja nauðsynlegt fjármagn til að markmið náist og auðvitað verður það gert í samræmi við efnahag á hverjum tíma.

Þessi aðgerðaáætlun sem felur í sér heildstæðar úrbætur í brýnustu málefnum barna og barnafjölskyldna mun verða mjög merkur áfangi sem ég fagna mjög. Lögð er áhersla á forvarnastarf, fræðslu og fyrirbyggjandi þætti þannig að koma megi í veg fyrir ýmis vandamál í uppeldi barna okkar. Þannig er sérkafli um forvarnir til að bæta heilsu og líðan barna og ungmenna. Í áætluninni er gert ráð fyrir að reynt verði að hindra að vandamál vaxi án þess að gripið sé til aðgerða og endi í neyðarlausnum eða jafnvel refsivist ungmenna.

Einn hornsteinninn í áætluninni er sá einbeitti vilji að bæta afkomu barnafjölskyldna og sporna gegn fátækt. Eitt mikilvægasta viðfangsefni Alþingis er að tryggja jafnrétti og jöfn tækifæri í þessu landi og því hefur ríkisstjórnin heitið í stefnuyfirlýsingu sinni. Fátækt er ein mesta ógnin við jafnréttið og ekkert okkar vill að börn og ungmenni þurfi að gjalda efnahags foreldra sina og verða án nauðsynlegra og sjálfsagðra lífsgæða. Því miður hefur allt of stór hópur barna búið við fátækt og brýnt að bregðast við til að tryggja að þessi hópur sitji ekki eftir hvað varðar þjónustu og tækifæri í samfélaginu.

Annar hornsteinn í aðgerðaáætluninni er stuðningur við foreldra og stofnanir í uppeldisstarfi þeirra. Í vaxandi mæli eru sveitarfélög og skólar farin að bjóða upp á námskeið í foreldrafærni og er lagt til að það starf verði eflt, og tryggt að það nái til allra sveitarfélaga. Með þessu er undirstrikað að foreldrar eru auðvitað mikilvægasti hlekkurinn í uppeldi barna, hlúa þarf að og veita foreldrum tækifæri til að sinna hlutverki sínu sem uppalendur og tækifæri til að fræðast um hvernig best megi takast á við uppeldið. Það þykir sjálfsagt að eigendur hunda sæki námskeið og læri að ala upp og hirða um hunda sína en það er ekki fyrr en síðustu árin sem þykir eðlilegt að foreldrar barna fái ráðgjöf og þjálfun í þeirra miklu mikilvægara uppeldishlutverki að ala upp sín eigin börn.

Í áætluninni er jafnframt gert ráð fyrir því að nýtt verði reynsla erlendis frá varðandi aðstoð við fjölskyldur og meðferð barna með hegðunarvandkvæði eða við börn sem eiga í vímuefnavanda þar sem byggt er á meðferð utan stofnana og í nærumhverfi ungmennanna þar sem veittur er stuðningur við fjölskyldurnar. Þar er einmitt lögð áhersla á það að eftirfylgni komi í framhaldi af meðferð.

Þriðji hornsteinninn er aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik. Þar þarf að eyða biðlistum eftir greiningum og/eða þjónustu á barna- og unglingageðdeild svo eitthvað sé nefnt. Auka þarf þjónustuna úti á landsbyggðinni svo foreldrar þurfi ekki að kosta miklu til í tíma og peningum til að sækja þjónustuna til höfuðborgarinnar. Efla þarf heilsugæsluna úti á landi og tryggja að greiningar, sem oft eru forsenda réttrar meðferðar, nýtist sem fyrst og sem best.

Fjórði hornsteinninn er aðgerðir í þágu innflytjenda. Það þarf samhent átak til að gera betur og tryggja að ólík tungumál eða ólík menning leiði ekki til einangrunar. Börn og ungmenni af erlendu bergi brotin þurfa að eiga kost á að taka þátt í öllu starfi samfélagsins, hvort sem um er að ræða skólastarf, íþrótta- og tómstundastarf eða annað það starf sem fram fer. Þarna gegnir íslenskukunnáttan lykilhlutverki, og íslenskukennslan.

Af nægu er að taka í málefnum barna og unglinga, málefnum sem við getum sinnt betur án þess að ríki eða sveitarfélög yfirtaki ábyrgð á uppeldinu. Þjónusta okkar við og umhyggja okkar fyrir börnum og ungmennum, eldri borgurum og öryrkjum er áreiðanlega einn besti mælikvarði á gæði samfélagsins. Þess vegna er svo mikilvægt að við stöndum saman um að koma þessum velferðarmálum áfram, vinnum að heill barna okkar. Slík áætlun verður aldrei tæmandi enda ætlunin að fjalla um einstaka þætti í viðkomandi ráðuneytum, ræða við sveitarfélögin, við stofnanir og félög og þannig bætist eflaust eitthvað við áður en einstök mál koma fullsköpuð inn í þingið til endanlegrar afgreiðslu.

Mikilvægt er að tryggja börnum með þroskafrávik og fötlun bestu þjónustu og lít ég svo á að öll áætlunin eigi einnig við um þá hópa. Það þarf vart að taka fram að áætluninni er ætlað til að ná til allra barna og ungmenna.

Íþrótta- og tómstundafélög og stofnanir, svo sem félagsmiðstöðvar, munu einnig verða að gegna veigamiklu hlutverki í þessari áætlun jafnt og lögboðnar stofnanir, svo sem skólar, ekki hvað síst til að tryggja jafnan aðgang að þjónustu og jafnframt að tryggja innflytjendabörnum bætta stöðu í samfélaginu. Þannig mætti lengi halda áfram.

Aðgerðaáætlunin byggir ekki á neinu neyðarástandi í íslensku samfélagi en er staðfesting á að við höfum sofið á verðinum gagnvart ýmsum málum tengdum uppeldi barna og ungmenna og málefnum barnafjölskyldna og það er því verðugt verkefni að ná þjóðarsátt um úrbætur. Við þurfum og getum einfaldlega gert betur og hér eins og annars staðar gerum við kröfu um að Ísland verði í fremstu röð. Ég treysti að þessi aðgerðaáætlun fái víðtækan stuðning og verði afgreidd til félags- og tryggingamálanefndar (Forseti hringir.) nú að lokinni umræðu og hljóti lokaafgreiðslu á yfirstandandi sumarþingi.