134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[12:22]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með mörgum þeim þingmönnum sem hér hafa talað í dag og fagna þeirri aðgerðaáætlun sem hér hefur verið lögð fram til að styrkja stöðu barna og ungmenna. En áður en ég fer að ræða hana sérstaklega verð ég auðvitað að segja að það veldur mér áhyggjum að eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem enn hefur að minnsta kosti tjáð sig um þessa áætlun, hefur lýst andstöðu við hana og ekki virðist vart við mikinn áhuga hjá öðrum þingmönnum þess ágæta flokks, enn sem komið er í þessari umræðu, á að tjá sig um áætlunina. Ég velti því fyrir mér af því hér hefur verið rætt um kostnaðinn við áætlunina, sem vissulega er þarft að ræða, hver innstæðan er fyrir henni. Hvar er hæstv. fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem auðvitað þarf að sækja gull í greipar til til að áætlunin geti orðið að veruleika? Mér finnst mjög mikilvægt að í þessari umræðu eða þeirri síðari sem á eftir að koma, skýrist afstaða hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins og hvort þeir standi heilir að baki þessari aðgerðaáætlun, a.m.k. hefur ekki orðið vart við mikinn áhuga af þeirra hálfu á því sem hér er til umræðu.

Ég nefndi það í upphafi að ég fagnaði þessari áætlun og þeirri hugmyndafræði sem höfð hefur verið til hliðsjónar við smíði hennar. Strax í upphafi hennar er vísað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem mér finnst að vera eigi grundvallarplagg við alla stefnumótun í málefnum barna. Auðvitað er löngu tímabært að hér verði mótuð slík áætlun eða aðgerðaáætlun í málefnum barna því að þetta er eitt brýnasta viðfangsefni stjórnmála nútímans og við Íslendingar höfum verið langt á eftir öðrum Norðurlöndum t.d. þegar við komum að því að móta stefnu í málefnum barna og ungmenna.

Ég sakna þó þess í áætluninni að þar tel ég að ræða hefði mátt sérstaklega um barnalýðræði út frá 12.–15. gr. sáttmálans þar sem rætt er sérstaklega um rétt barna til að tjá skoðanir sínar. Ég held að þar eigum við Íslendingar talsvert verk óunnið í því að hvetja til þess að börn taki lýðræðislegan þátt í öllu því starfi sem þau taka þátt í, hvort sem það er í skóla, frístundum eða öðru. Ég held að það sé nokkuð sem við mættum skoða sérstaklega hér einhvern tímann í tengslum við þessa áætlun.

Ég fagna henni líka af því að hér hefur talsvert verið rætt um vinnutíma, sívaxandi vist barna í ýmiss konar leikskólum eða öðru tómstundastarfi eða slíku og minni samvistir fjölskyldunnar. Ég tel að þetta sé rétta leiðin, að skoða það að stofna samráðsvettvang ríkis, aðila vinnumarkaðar og sveitarfélaga, ég held að þetta sé skynsamleg aðferðafræði til að ná sátt í samfélaginu um að skapa hér fjölskylduvænni vinnutíma. Sama má segja um hækkun barnabóta til tekjulágra fjölskyldna, það er fagnaðarefni.

Það sem mig langar kannski að ræða sérstaklega og tel þarft að fái umræðu eru annars vegar fæðingarorlofsmálin og hins vegar forsjármál og málefni einstæðra foreldra. Það er auðvitað gott að fæðingarorlof verði lengt enda þekkja allir foreldrar barna á milli 9 mánaða og 18 mánaða að þar myndast bil sem oft getur verið mjög erfitt að fylla á þessum tímapunkti. En samhliða þessari lengingu þarf hreinlega að endurskoða lög og reglur um sjóðinn og þétta það regluverk, því að því miður hefur reynslan verið sú, þó að mjög góð reynsla hafi verið af sjóðnum á fyrstu árum hans, að ýmsir detta á milli skips og bryggju þegar kemur að úthlutun. Er það einkum sökum ósveigjanleika innan kerfisins þar sem gerðar eru mjög skýrar kröfur t.d. um að fólk sé samfleytt í námi eða starfi í sex mánuði fyrir fæðingu barns og gildir þá einu þó að inn á milli komi t.d. þrír dagar milli starfs og náms hjá námsmönnum en þá hrapar fólk niður um tekjuflokk og fer úr tæplega 100 þús. kr. niður í tæplega 50 þús. kr. Það er meira en að segja það að sinna barni fyrir tæpar 50 þús. kr. á mánuði. Mér finnst að þetta þurfi að endurskoða samhliða þessu. Síðan þarf sérstaklega að skoða stöðu einstæðra foreldra í tengslum við Fæðingarorlofssjóð því að eins og við þekkjum eru mánuðir í fæðingarorlofi hugsaðir fyrir foreldra en þeir eru ekki metnir út frá börnunum. Því þar sem aðstaðan er slík að aðeins annað foreldrið hefur áhuga eða aðstæður til að sinna barninu og hitt hefur ekki þær aðstæður, virkar þetta þannig að það barn fær bara sex mánuði með foreldri sínu í fæðingarorlofi. Kannski þarf þá að hugsa þennan rétt ekki aðeins út frá foreldrum heldur líka út frá rétti barna til að njóta samvista við foreldra sína óháð því hvort þeir eru einstæðir eða eru saman eða vinna saman að uppeldi barnsins.

Mér finnst að auka þurfi sveigjanleikann í kerfinu og það tengist auðvitað líka forsjármálum foreldra. Við þekkjum að farið hefur vaxandi það sem kallað er sameiginleg forsjá í kerfinu sem er auðvitað mjög gott fyrirkomulag að foreldrar sinni báðir uppeldi barna, en hins vegar er kerfið enn þá þannig að barnið á aðeins lögheimili hjá öðru foreldrinu og það foreldri fær meðlag og barnabætur. Maður spyr því hvort ekki sé rétt að innleiða sveigjanlegri hugsun í það kerfi þar sem foreldrar sinna báðir og koma að með virkum hætti og borga fyrir uppeldi síns barns. Af hverju er þessi réttur einungis bundinn við annað foreldrið? Það skiptir máli að horfa til svona jafnræðissjónarmiða.

Þetta eru dæmi sem ég tel að ræða þurfi í tengslum við þessa áætlun og skoða sérstaklega, því að eins og við þekkjum er fjölskyldumunstur hér á landi eins og annars staðar í hinum vestræna heimi gerbreytt og sívaxandi fjöldi barna býr við það að eiga jafnvel marga foreldra.

Þá vil ég nefna uppeldisráðgjöf sem er nefnd í skjalinu sem er auðvitað hið besta mál og er sívaxandi krafa um að njóta einhverrar slíkrar ráðgjafar. Talsvert hefur verið gert í þeim efnum, t.d. hjá Reykjavíkurborg á vegum þjónustumiðstöðvar þar. Sú ráðgjöf hefur alltaf kostað og það hefur að sjálfsögðu skert aðgengi að henni þannig að gjaldfrjáls uppeldisráðgjöf er það sem auðvitað ber að stefna að í þessum efnum.

Að lokum langar mig að nefna börn innflytjenda og aðgerðir í þágu þeirra. Þar er mjög skýrt kveðið á um íslenskukennslu sem ég fagna ekki aðeins sem íslenskufræðingur, heldur sem Íslendingur. En ég minni þó á að rannsóknir hafa sýnt að miklu skiptir að börn innflytjenda njóti þá líka einhverrar kennslu í móðurmáli sínu. Það er ekki rætt um það í þessari áætlun en það hefur í rauninni þótt sýna aukna aðlögunarhæfni í nýju samfélagi að hafa líka þekkingu á sínu móðurmáli og það er auðvitað hluti af því að þekkja menningu síns föðurlands. Ég svona kalla því eftir að heyra einnig eitthvað um móðurmálskennslu barna innflytjenda.

Að öðru leyti fagna ég þessari tillögu til þingsályktunar en spyr eðlilega í ljósi umræðna sem hér hafa orðið í dag hver áhugi hv. þingmanna Sjálfstæðisflokks sé á að standa bak við þessa tillögu og hver afstaða hæstv. fjármálaráðherra sé sem væntanlega er sá sem kemur til með að annast fjármögnun þessarar tillögu.