134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[12:43]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Frú forseti. Við höfum verið svo gæfusöm í þessu landi að hafa á undanförnum árum og áratugum skapað umgjörð um samfélag sem hefur gert okkur kleift að skapa verðmæti og byggja upp almenna efnahagslega velsæld. Til þess að lönd standist samanburð í alþjóðlegri samkeppnishæfni dugir hins vegar ekki það eitt að hin efnalega umgjörð sé góð heldur þarf líka að tryggja velferð og aðbúnað fjölskyldna og barna. Fólk sem býr við óvissu um velferð fjölskyldu sinnar, andlega eða veraldlega afkomu hennar, er ekki öflugt á vinnumarkaði og það skapar ekki eins mikil verðmæti og ella væri mögulegt. Fólk sem býr við ótta um örlög sín þegar starfsævi lýkur nýtir að sama skapi ekki hæfileika sína eða tækifæri til fulls. Það er þess vegna sem áhersla okkar á aukna velferðaruppbyggingu í ríkisstjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks er svo mikilvæg. Uppbygging velferðarþjónustu er forsenda efnahagslegrar velferðar fyrir alla og hún er forsenda þess að allir fái nýtt tækifæri sín í samfélaginu, ekki bara sumir.

Sú efnahagslega velsæld sem við höfum notið á síðustu árum byggir á of veikum grunni. Aðbúnaður barnafjölskyldna er lélegur og það eru miklar byrðar lagðar á þær fjölskyldur. Ástandið er kannski gott á meðan allt gengur í haginn og fólk er sólarmegin í tilverunni en um leið og eitthvað bjátar á og erfiðleikar steðja að þrengist um aðstæður fólks. Það er þess vegna sem þessi aðgerðaáætlun sem hér er til umræðu er svo mikilvæg, vegna þess að hún veitir heildstæða sýn á það hvernig við ætlum að mæta fólki við slíkar aðstæður og hvernig við ætlum að búa í haginn þannig að allir fái notið tækifæra.

Ég vil sérstaklega hrósa hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að hafa náð að koma saman þessari metnaðarfullu þingsályktunartillögu á ekki lengri tíma og þau vinnubrögð boða gott um áframhald starfa hennar í félagsmálaráðuneytinu.

Hv. 8. þm. Norðvest., Einar Oddur Kristjánsson, vék að því áðan að það kynni að skapa óraunhæfar væntingar í samfélaginu að setja þingsályktunartillögu sem þessa á dagskrá. Því er ég ekki sammála og það er mikilvægt að við höfum það í huga að það fer saman efnahagsleg uppbygging og uppbygging velferðarþjónustu. Þau lönd sem fremst standa í samkeppnishæfni á alþjóðavísu eru þau lönd sem besta velferðarkerfið hafa og best búa að öllum borgurum, ekki bara sumum. Að búa vel að börnum og ungmennum og tryggja tækifæri þeirra og tryggja að þau geti alltaf á öllum tímum nýtt hæfileika sína til fulls er því fjárfesting sem hefur engu minna gildi en aðrar fjárfestingar í stoðkerfi samfélagsins.