134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

Íbúðalánasjóður.

[13:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra talaði hér fallega um Íbúðalánasjóð og félagslegt hlutverk hans. Það var erfitt að skilja ræðu hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að ráðherra liti á Íbúðalánasjóð sem bráðnauðsynlegt og ómissandi tæki sitt í húsnæðismálum. Þeim mun furðulegra er það ef engu að síður hefur verið rætt um að færa sjóðinn yfir í fjármálaráðuneytið, færa hann til Sjálfstæðisflokksins, og við vitum hvaða hug a.m.k. ýmis öfl innan Sjálfstæðisflokksins og á bak við hann bera til Íbúðalánasjóðs. Það er einhver undarleg staða uppi í þessu máli. Ég var litlu nær af þeim hluta ræðu ráðherrans sem sneri að því hvað á að verða með Íbúðalánasjóð. Ég get tekið undir hvert orð sem fallega var sagt um sjóðinn og mikilvægi hans.

Vilja þá ekki hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra gera hér grein fyrir því um hvað stjórnarflokkarnir sömdu? Er Íbúðalánasjóður kominn á aftökulistann eins og Samtök atvinnulífsins eða Verslunarráðið eða hvað það nú heitir allt saman með Vilhjálm Egilsson í broddi fylkingar augljóslega vill, eins og ýmis öfl innan bankakerfisins vilja og jafnvel öfl í báðum stjórnarflokkunum? Það er algerlega nauðsynlegt að forustumenn ríkisstjórnarinnar geri heiðarlega grein fyrir því um hvað var samið í þessum efnum. Hver eru áformin?