134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

Íbúðalánasjóður.

[13:45]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Hæstv. þingforseti. Það er ekki oft sem mér dettur í hug að fara að hæla framsóknarmönnum. Þó verð ég að viðurkenna að núna sé ég ástæðu til þess að hæla formanni Framsóknarflokksins, þessum nýkjörna eða nýskipaða, og ég vil meina að hann hafi staðið aðeins í ístaðinu, svo maður noti mál sem tengist honum, við að verja Íbúðalánasjóð gegn niðurlagningu. Það er nú einu sinni þannig að í hinum dreifðu byggðum landsins skiptir Íbúðalánasjóður miklu máli. Fólk sem býr fyrir austan Selfoss og ég tala nú ekki um fyrir austan og vestur á fjörðum býr ekki við sömu fyrirgreiðslu í bankakerfinu og fólk á Stór-Sandgerðissvæðinu eða réttara sagt höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Ég tel að Íbúðalánasjóður hafi með sínum lágu vöxtum stuðlað að því og ég vona svo innilega að við stöndum ekki frammi fyrir því að hann verði í fyrsta lagi færður undir fjármálaráðuneytið því að þá vitum við hvar hann endar og í öðru lagi verði hann ekki lagður niður eins og bankarnir vilja.

Bankarnir eru ekkert heilagir og vilji bankakerfisins er ekki upphaf og endir alls. Það er alveg hægt að skoða ýmislegt í samkeppnisstöðu bankanna og ég held að ríkisstjórn sem er hrædd við bankana eigi að skoða hug sinn betur.