134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

Íbúðalánasjóður.

[13:50]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Frú forseti. Það er gott að hv. 3. þm. Suðurk. Guðni Ágústsson hefur áhyggjur af Íbúðalánasjóði og mikilvægt að við fáum tækifæri til að skýra fyrir honum og öðrum að hann þurfi ekki að hafa þær áhyggjur vegna stjórnarsáttmálans. Það hefur verið samkomulag um að verja Íbúðalánasjóð, þó með þeim takmörkunum sem honum á öðrum betur að vera kunnugt um sem eru ákvæðin í sambandi við samkomulagið við EFTA og ESA.

Staðreyndin er sú að starf Íbúðalánasjóðs hefur verið mikið til umræðu á undanförnum árum. Ítrekað hafa bankarnir óskað eftir að taka við hlutverki sjóðsins, þ.e. allri umsýslu og afgreiðslu á lánum til íbúðabygginga, og um tíma var umræðan í fyrrverandi ríkisstjórn sú að gera Íbúðalánasjóð að heildsölubanka sem lánaði fé til almennu bankanna. Síðar kom hugmynd um sérvarin skuldabréf. Íslensku bankarnir leituðu til Eftirlitsstofnunar EFTA um lögmæti meintra ríkisstyrkja til Íbúðalánasjóðs. ESA úrskurðaði í ágúst 2004 að ríkisaðstoð við Íbúðalánasjóð væri í þjónustu almennings og samrýmdist því reglum EES en því miður tók EFTA-dómstóllinn þetta mál til umfjöllunar og felldi þann úrskurð síðan úr gildi í júní 2006. Þess vegna gætu ákveðin atriði þurft athugunar við og líklegt er að niðurstöðurnar sem nú verða kynntar í sumar eða haust muni með einhverjum hætti hafa áhrif á stöðu sjóðsins. Þess vegna er mjög mikilvægt að taka umræðuna og skoða málið vel.

Það sem mér finnst vera grundvallaratriði og skipta mestu máli í sambandi við umfjöllun um sjóðinn er að hann á að halda því mikilvæga hlutverki sem hann hefur sem öryggisnet til að tryggja félagslegan rétt. Ef einhverjar breytingar verða gerðar eru þær helstar að efla sjóðinn til að hann geti gegnt samkeppnishlutverki á bankamarkaði. Hann þarf að tryggja einmitt að menn hafi aðgang að lánsfjármagni út á landsbyggðina og ég treysti á það og veit að menn munu verja sjóðinn eins og hægt er.