134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:21]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra vék að einum þætti í þessu máli sem fjallað er um, sem líklega er eitt stærsta vandamál skólakerfisins í dag, brottfalli úr framhaldsskólum. Það er gífurlegt áhyggjuefni að brottfall úr framhaldsskólum á Íslandi skuli vera á bilinu 25–40%. Það þarf að grípa til mjög róttækra aðgerða til að stemma stigu við þessari þróun og það þarf að grípa til aðgerða sem kosta ugglaust stofnsetningu ákveðins verkefnissviðs í menntamálaráðuneytinu. Það er nauðsynlegt að fylgjast mjög vel með þessu brottfalli, það þarf að fylgjast vel með þeim möguleika að hvetja nemendurna til að koma aftur.

Þeir fara af ýmsum ástæðum, það er atvinna sem kallar, fjárhagsaðstæður, pínulítið áhugaleysi og ýmislegt annað sem spilar inn í. Það er engin hemja að þessi þróun gangi þannig fyrir sig, til að mynda í einu kjördæmi landsins þar sem 80% vinnandi afls hafa ekki nema grunnskólamenntun. Þetta eru stóru verkefnin sem blasa við að mínu mati í þessum efnum og ættu kannski að vera hryggbitinn í þeirri tillögu sem hér er fjallað um.