134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:22]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta innslag. Ég er honum mjög sammála og ég las með athygli þær greinar sem hv. þingmaður skrifaði í Morgunblaðið í nýafstaðinni kosningabaráttu og fjallaði töluvert um þetta mál í aðdraganda kosninganna í vor og ég deili þessum áhuga mjög með honum.

Við þurfum held ég að grípa til mjög margvíslegra aðgerða til að vinna gegn brottfallinu og trúi ég að mér reyndari skólamenn hér í salnum geti staðfest það. Við þurfum að skoða allt skólakerfið í heild sinni. Ég held að áherslan á bóknámið í efstu bekkjum grunnskólanna og samræmdu lokaprófin skipti þarna máli, ég held að það þurfi að efla listnámið, starfsnámið, bæta verulega námsráðgjöf í grunnskólum og framhaldsskólum og breyta öllu þessu umhverfi verulega til að ná utan um þetta mál og vinna gegn brottfallinu, gera skólann allan frá leikskóla og upp í gegnum framhaldsskólann miklu einstaklingsmiðaðri ef svo má segja, hvaða skilningur sem er lagður í það orð í hvert sinn, að námið henti hverjum einstaklingi miklu betur en það hefur gert og sé sniðið meira að þörfum hans með því að minnka vægi bóknámsins. Þessar fáu bóknámsgreinar sem allt miðast við að kenna henta að sjálfsögðu ekki nema hluta barnanna og alls ekki öðrum. Við eigum að gera námið miklu fjölbreytilegra og vinna að því með öllum tiltækum ráðum að koma böndum á brottfallið og ná því niður þannig að 90–95% af hverjum einasta árgangi ljúki námi úr framhaldsskóla. Hv. þingmaður spurði hérna áðan hvort þetta ætti ekki að vera hryggstykkið í slíkri aðgerðaáætlun, og svar mitt við því er: Jú, það ætti að vera einn af meginþáttunum í slíkri áætlun og við hljótum að taka það til sérstakrar skoðunar að koma því að í slíkri áætlun að vinna sérstaklega gegn brottfallinu. Auðvitað eru sérstakar aðgerðir í gangi annars staðar í því máli.