134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:33]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að átta sig á því á hvaða bylgjulengd hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talar miðað við málflutning hans hér áðan. Hér er lögð fram markviss stefna með mjög víðtækri aðgerðaskrá sem á að vinna faglega og formlega og þess er getið í tillögunni. Sjálfstæðismenn hafa þessa víðtæku sýn og munu fylgja henni eftir. Það þarf að vinna úr mörgum þáttum, bera saman bækur, leita upplýsinga og draga fram hluti til áhersluskapandi aðgerða. Þess vegna er mjög undarlegt þegar hv. þingmaður talar utan úr buskanum í þessu máli og virðist skilgreina út af fyrir sig. Það eru fleiri þingmenn en hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem hafa talað í þessu máli.