134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:36]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er sérkennileg upplifun á nýjum vinnustað að vera vændur um skoðanaleysi eða tregðu af því að maður fer ekki í pontu til þess að taka þátt í umræðu um þessa þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar. Það gefur augaleið að þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar hlýtur að hafa fullan stuðning beggja þingflokka. Það ætti því að vera reyndum þingmanni, hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, ljóst að svo er.

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins styðjum að sjálfsögðu þessa stjórnartillögu. Það er kannski bara ekki okkar siður að fara í pontu til að segja það eitt að maður sé sammála því sem stendur á blaði. Óski hv. þingmaður eftir skoðun minni þá er hún alveg kristaltær. Ég styð þessa þingsályktunartillögu og mun fylgja henni eftir í þeim frumvörpum sem fagráðuneytin koma með þegar þar að kemur. En ég árétta að það er hvorki dæmi um tregðu, skoðanaleysi, stuðningsleysi né eitt eða neitt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að við komum ekki í ræðustól í hvert skipti til að segja að við séum sammála síðasta ræðumanni. Það ættu kannski fleiri að taka sér til fyrirmyndar.