134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:38]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og upplýsingar um afstöðu hennar til málsins. Það styrkir framgang málsins að fá þessar stuðningsyfirlýsingar eina af annarri hér í ræðustól. Ég vek hins vegar athygli á því að aðeins einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur tekið til máls og flutt ræðu. Það var hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hann lýsti yfir andstöðu við málið. Þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa aðeins komið hér í andsvörum (Gripið fram í: Það eru líka ræður.) og ekki talið ástæðu til þess að flytja ræðu. (Gripið fram í.)

Ég hlýt að spyrja: Hvers vegna sjá þeir ekki ástæðu til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum í þessu mikilsverða máli? Hvað á það að þýða, virðulegi forseti, í ljósi þess að einir sjö eða átta þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafa talað hver á fætur öðrum? Senda þeir þau skilaboð að þeir ætli bara að þegja og taka til fyrirmyndar þá sem hafa setið og ekki viljað tjá sig um þetta mál?

Mér finnst þetta sérkennileg byrjun á stjórnarsamstarfi núverandi flokka, þegar hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sendir þessa eyrnafíkju til nánast helmingsins af þingflokki Samfylkingarinnar og kvartar undan því að þeir hafi talað í umræðunni og lýst skoðunum sínum á þessu þingmáli. Það er ekki góðs viti fyrir framgang málsins eða stjórnarsamstarfsins að það þoli ekki að þingmenn Samfylkingarinnar tali.

Er kannski hugmyndin, virðulegi forseti, að setja ræðukvóta á Samfylkinguna þannig að Sjálfstæðisflokkurinn úthluti mínútum sem samstarfsflokkurinn megi tala í tilteknum málum? Það væri fróðlegt að fá fram afstöðu þingmannsins til þess. Hún hefur kost á því að taka hér aftur til máls ef hún svo kýs.