134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:41]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að hér er um að ræða þingsályktunartillögu sem er gerð til þess að fylgja úr hlaði höfuðáherslumálum nýkjörinnar ríkisstjórnar. Nú ber svo við að þessi þingsályktunartillaga nær til fimm ráðuneyta sem eiga með tíð og tíma að koma þessari þingsályktunartillögu í framkvæmd. Mér finnst það tilhlýðilegt, hæstv. forseti, að þeir ráðherrar sem um þessi mál eiga að fjalla á næstu fjórum árum og koma eiga þessum aðgerðum til framkvæmda sýni umræðunni þá virðingu að sitja í þingsal og taka þátt í þeirri umræðu sem hér fer fram. Hér er um að ræða höfuðstefnumál nýrrar ríkisstjórnar og hæstv. ráðherrar sýna þinginu ekki þá virðingu að sitja hér og fjalla um þá málaflokka sem að þeim snúa.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að hann geri viðkomandi ráðherrum grein fyrir því hvaða umræða fer hér fram. Mér finnst ekki mikil alvara í málinu í ljósi þess að einungis einn af þeim ráðherrum sem eiga eitthvað að véla um þessa þingsályktunartillögu skuli sitja í salnum. Það er ekki mikill þungi í þeirri umræðu þegar aðrir hæstv. ráðherrar, sem eiga að koma þessari þingsályktunartillögu í framkvæmd, hunsa það að sitja hér. Ég geri mér grein fyrir því að einhverjir geti mögulega verið uppteknir eins og gengur en ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé hægt að koma boðum til þeirra ráðherra sem hafa kost á að vera viðstaddir þessa umræðu því að hér er um mjög mikilvæg mál að ræða. Við þurfum að fá svör við ákveðnum spurningum sem við stjórnarandstæðingar í þessari umræðu höfum borið upp, skýr svör. En því miður hefur þeim ekki verið til að dreifa.