134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:52]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er afskapleg hissa á svo neikvæðum tóni hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni yfir þessu máli. Í orðum hans kemur fram að hann telji þetta allt saman jákvætt og gott og blessað. En tónninn er eitthvað svo neikvæður og neikvæðnin kemur meira að segja fram í því hvernig hann lemur í borðið þegar hann kveður sér hljóðs.

Hér er að vissu leyti nýbreytni í vinnubrögðum, að leggja fram þingsályktunartillögu um það hvað menn ætlast fyrir og það er rétt að undirstrika það að hér er þingsályktunartillaga á ferð en ekki frumvarp. Að því leyti má hv. þingmaður ekki gera sömu kröfur til þess að málið sé reifað líkt og um fullskapað frumvarp væri að ræða. Mér finnst síðan svolítið einkennilegt að fjalla um að það sé eitthvert ósætti um þetta hjá stjórnarliðinu þótt menn geti haft mismunandi skoðanir á aðferðafræðinni í þessu, sem er að vissu leyti ný aðferðafræði.

Hv. þingmaður spyr síðan hvernig verði unnið með þetta mál frekar. Auðvitað munu einstök frumvörp í samræmi við ályktunina verða lögð fram af ráðherrum þeirra málaflokka sem með þau mál fara og þá munu koma fram nákvæmari útfærslur að sjálfsögðu og eðlilega kostnaðarmat. Hvenær og hvernig verða málin lögð fram? Það verður í samhengi við stöðu efnahagsmála. Enginn velkist í vafa um að heilmikill kostnaður felist í þessari tillögu og heilmikill kostnaður sem muni falla á ríkissjóð vegna þessarar tillögu eftir því sem líður á kjörtímabilið. Við þekkjum það báðir, ég og hv. þingmaður, að í fjárlagavinnunni, í þeim áætlunum sem lagðar eru fyrir fram í tímann, er svigrúm ef ríkissjóður er rekinn á skynsamlegan og eðlilegan hátt og málið er ekki þess eðlis að ekki sé hægt að standa (Forseti hringir.) við það á því kjörtímabili sem um hefur verið rætt.