134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:58]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessum tóni hjá hæstv. ráðherra og tel mikilvægt að hafa stöðu efnahagsmála til hliðsjónar þegar tillögur sem þessar eru lagðar fram.

Ég sé að hæstv. ráðherra telur að plaggið sem hefur verið lagt fram hér muni hafa mjög góð áhrif á markaðinn og efnahagslífið. Menn munu væntanlega fagna því á þeim bænum, hæstv. ráðherra hlýtur að telja það. Ég ætla að leyfa mér að efast um að svo sé, en hins vegar styð ég í meginatriðum þá þingsályktunartillögu sem hér hefur verið lögð fram, við þurfum að koma mörgum af þessu góðu málum til verka.

Hins vegar gagnrýni ég framsetninguna og vinnubrögðin. Það hefði mátt standa mun betur að þessu. Ég held að margir hv. stjórnarliðar viti það innst inni að það lá kannski ekki á að birta þessa þingsályktunartillögu hér í dag. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefðu frekar átt að vinna heimavinnuna.