134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:05]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra er orðinn stór karl. Hann talar hér niður til þingmanna og les þeim lífsreglurnar enda er hann orðinn hæstv. ráðherra. Það er nú þannig að Samfylkingin hefur fórnað ýmsu í þeim bitlingaleik sem við eigum eftir að ræða betur (Gripið fram í.) um þegar líður á kjörtímabilið og það er ekki fyrirkvíðanlegt.

Hæstv. forseti. Ég er á því, og ég veit ekki hvort hæstv. viðskiptaráðherra er á því, að auðvitað eigum við að hækka jöfnunarstyrki til framhaldsskólanema. (Gripið fram í.) Það er ekkert kveðið á um það í því plaggi sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Hins vegar er hægt að setja mismikla fjármuni til hverrar og einnar aðgerðar. Þegar hv. þingmaður talar um einhverja milljarða hvað jöfnunarstyrkinn varðar þá er það náttúrlega ómálefnalegt raus sem er ekki hæstv. iðnaðarráðherra samboðið og ég bið hæstv. ráðherra um að taka sig á í þeim málflutningi (Forseti hringir.) sem hann flytur héðan úr ræðustóli Alþingis.