134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:08]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega ekkert skilyrði fyrir því að framkvæmdarvaldið geti unnið tillögur er varða þá málaflokka sem hér um ræðir í sumar. Þessi þingsályktunartillaga er enginn grundvöllur fyrir því. Ríkisstjórninni hefði verið í lófa lagið að leggja fram tillögur með fjárlagafrumvarpi sem tekið verður fyrir í hv. fjárlaganefnd á hausti komanda.

Hins vegar fagna ég því sem er mikið fagnaðarefni að það er mikil jákvæðni hjá þingmönnum og ráðherrum Samfylkingarinnar gagnvart því að hækka jöfnunarstyrki til framhaldsskólanema. Það er mjög mikilvægt mál því að þeir styrkir eru allt of lágir í dag. Við frambjóðendur margir, frambjóðendur allra flokka, höfðum uppi nokkuð mörg orð um það að bæta þyrfti þar úr og ég á von á því, miðað við þá umræðu sem hér hefur farið fram, að úr rætist von bráðar.

Það er ljóst og ekki verður um það deilt að ekki er kominn verðmiði á þær tillögur sem hér um ræðir. Það er ekki búið að útfæra þær og það hlýtur að þurfa að skoða það með tilliti til fjárlagagerðar í haust hvert umfangið verður, bæði gagnvart fjáraukalögum í ár og fjárlögum næsta árs. Það þarf að taka á því með ábyrgum hætti. Auðvitað geta menn einfaldað hlutina með því að tala um börn annars vegar og viðskiptalíf hins vegar og stillt þessu upp sem óskyldum hlutum. Útgjöld ríkissjóðs eru hluti af íslensku efnahagslífi og það skiptir máli hver útgjöld, tekjuafgangur eða tekjuhalli fjárlaga er hverju sinni. Það er einfaldlega þannig, sama hvort okkur líkar betur eða verr, að það skiptir máli að taka á þessum málum með ábyrgum hætti. Það viljum við gera. Við styðjum meginefni þessara tillagna en við vitum ekkert hvað þær munu kosta. Það er kjarni málsins.