134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:10]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir J. Jónsson heldur áfram að óska eftir að hér verði settar fram kostnaðaráætlanir á þingsályktunartillögustigi. Ég ætla ekki að dæma um hvað er rétt málsmeðferð í því en ég geri mér þó grein fyrir að í stefnuyfirlýsingu okkar er reiknað með því að við förum í rammafjárlög, leggjum fram áætlun til lengri tíma og það kemur til kasta okkar sem erum í fjárlaganefnd að vinna þá tillögu. Að sjálfsögðu, og það er einmitt þess vegna sem verið er að leggja þetta mál fram núna, þarf að koma með þessar tölur inn í fjárlagagerðina í haust og í framhaldinu í rammafjárlögin. Það er einmitt þess vegna sem liggur á að koma þessu af stað og reyna að ná utan um hvað málið á að fjalla um. Það hefur aldrei staðið til að allur kostnaðarpakkinn lægi fyrir í smáatriðum en það verður auðvitað á haustþinginu.