134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:12]
Hlusta

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna framkomu þingsályktunartillögunnar um aðgerðir til að styrkja stöðu barna og ungmenna í landinu. Ég óska hæstv. félagsmálaráðherra til hamingju með þessa tillögu og vona að hún nái fram að ganga í sem flestum liðum.

Ég er þó með eina spurningu. Það er búið að spyrja að svo mörgu hér að ég ætla að taka hérna eitt út úr. Það stendur í IV. kafla að lögð verði áhersla á fræðslu um offitu og forvarnir gegn ofþyngd og bætt úrræði til meðferðar og að aðgengi barna og ungmenna að hollum mat í leik og starfi verði aukið.

Ég spyr því þar sem ég er búin að starfa lengi við íþróttakennslu barna og veit hvar þessi vandi liggur: Ætlar hæstv. ráðherra að vera í samráði við menntamálaráðuneytið? Það sem ég tel að væri mjög skynsamlegt er að fjölga íþróttatímum í grunnskólum þar sem við náum best til barna í hreyfingu. Það er kannski hægt að minnast á það í þessu sambandi líka, af því hér er talað um hollt og gott mataræði, að það hefur komið hér fram að 4.000 börn eigi ekki möguleika á skólamáltíðum vegna fátæktar. Væri þá ekki skynsamlegt að koma fram með það að öll börn ættu kost á fríum skólamáltíðum, hollum og góðum, í skólanum? En um þetta þarf að sjálfsögðu að vera samstarf við menntamálaráðuneytið. Þarna held ég að best sé að ná til barnanna eins og ég sagði áðan.

Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Birkis J. Jónssonar um jöfnunarstyrki þar sem hægt sé að jafna kostnað fyrir landsbyggðarnemendur sem þurfa að sækja nám sitt oftar en ekki til Reykjavíkur eða annarra staða. Ég tel að það sé mjög brýnt að gera það.

Hv. þm. Árni Johnsen talaði um að brottfall væri undir 40% í skólakerfinu en það er enn hærra samkvæmt rannsóknum og könnunum víða, allt frá 43% og upp í 50% á sumum stöðum. Það þarf að leggja áherslu á að halda nemendum inni í skólakerfinu þannig að þau detti ekki út úr námi. Ég held að m.a. námskostnaður sem er svo hár hafi oft verið þess valdandi að þau gefast upp í námi. Foreldrar hafi jafnvel ekki haft efni á því að kosta þau til náms. Það er mjög alvarlegur hlutur og þarf að skoða.

Ég vil einnig leggja fram aðra spurningu og hún varðar það hvort hæstv. ráðherra geti lagt áherslu á að nemendur geti notið náms í heimabyggð að sjálfræðisaldri. Það mundi minnka kostnað verulega og vera til bóta.

Ég vil taka fram að það er margt mjög athyglisvert í þessum tillögum, eins og með fæðingarorlof og annað, og ef þessi mál ná fram að ganga mun það verða hagur margra barna, ungmenna og fjölskyldna í landinu.