134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef engar áhyggjur af samráðinu, ég held að það sé allt á sínum stað og við vitum vel hvar Samband íslenskra sveitarfélaga er til húsa og allt það. Þetta snýst um peninga og ég var að vonast til að fá að heyra eitthvað frá hæstv. ráðherra um það. Munu fylgja þessu, og auðvitað þarf þess hvort sem er, meiri fjármunir til sveitarfélaganna? Annars komast þau hvorki lönd né strönd í þessum efnum, hvað þá að gera leikskólann gjaldfrjálsan eða annað í þeim dúr. Hvernig halda menn að aðstæður sveitarfélaga á Vestfjörðum og sveitarfélaga í sjávarbyggðunum sem munu fá á sig stórkostlegan tekjuskell með niðurskurði við veiðar á næstunni verði til að gera hluti af þessu tagi ef ríkið kemur ekki til aðstoðar með tekjur? Þetta snýst að sjálfsögðu um það.

Ég dreg þá ályktun af niðurstöðu málsins að ósamið sé um þetta með öllu milli stjórnarflokkanna og tregða og fyrirvarar Sjálfstæðisflokksins leyndu sér ekki áðan. Það skyldi nú ekki vera svo að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi talað fyrir hönd fleiri en sjálfs síns þó aðrir hafi ekki beinlínis boðað andstöðu við málið, en skyldi nú ekki vera svo að félagsmálaráðherra eigi verk fyrir höndum áður en hún dregur Sjálfstæðisflokkinn með sér í stóra hluti í þessum efnum.