134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:18]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög fróðlegt að heyra upprifjun hv. þingmanns á afskiptum VG af fyrirhugaðri orkusölu til stóriðju. Sú afstaða sýnir það og undirstrikar að VG er ekki í prinsippinu á móti stóriðju. Ég hafði skilið það einhvern veginn öðruvísi en ég bið þá forláts ef svo hefur verið. Þó liggur alveg ljóst fyrir að VG styður stóriðju en það fer eftir því hvar hún er. Það er út af fyrir sig fín afstaða og ég hef ekkert við hana að athuga.

Að því er varðar síðan þau áform sem það fyrirtæki sem hér um ræðir kann að hafa í Straumsvík þá hef ég engar fregnir af því öðruvísi en lausafregnir í fjölmiðlum. Ef svo er að fyrirtækið sé úti um þorpagrundir að reyna að verða sér úti um önnur svæði þá veit ég ekkert um það annað en að ljóst er að sá ráðherra sem hér stendur mun engin ný rannsóknarleyfi eða nýtingarleyfi gefa út að því er orkuöflun varðar á óröskuðum svæðum. Það verður þá Alþingi sem verður að taka fram fyrir hendurnar á honum í því efni og bara til að veita hv. þingmanni hugarró mun iðnaðarráðherrann ekki veita því liðsinni sitt. Það kemur alveg skýrt fram í stefnuyfirlýsingunni, og hana hyggst ég halda eins vel og ég get, að við stefnum að því árið 2009, fyrir lok þess, að geta lagt fyrir þingið niðurstöður rammaáætlunarinnar og hún verður að hljóta formlega afgreiðslu Alþingis. Alþingi þarf þá að taka ákvörðun um hvort ráðist verður inn í óröskuð svæði. Það verður ekki gert ef þar er um að ræða svæði sem dæmast af sérfræðingum með mikið verndargildi eða hátt verndargildi. Ég held að ég og hv. þingmaður deilum þar svipaðri afstöðu.

Að því er varðar síðan þann orkusamning sem fyrirtækið hefur við tvö orkuframleiðslufyrirtæki hef ég kynnt mér stöðu þeirra mála. Það hefur frest til 30. júní til að ganga formlega frá því. Ég hef hins vegar enga hugmynd um hvað fyrirtækið hyggst gera (Forseti hringir.) varðandi það.