134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:22]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun bregðast við því með þeim hætti að fara eftir því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í þingræðu sinni fyrir nokkrum missirum, t.d. varðandi Nesjavelli, þar sem hann hvatti til þess að fyrst á annað borð væri búið að fara í það svæði þá verði því haldið áfram.

Ég vil einnig segja það algjörlega skýrt að ég hyggst ekki hryggja hv. þingmann með því að afturkalla leyfið sem forveri minn veitti borgarstjórn Reykjavíkur þegar sótt var um leyfi til að virkja á ákveðnum svæðum, m.a. með atbeina hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Svo einfalt er það nú.

Ég er með öðrum orðum að segja að þeir sem hafa rannsóknarleyfi fái að rannsaka, þeir sem hafa nýtingarleyfi fái að nýta án atbeina Alþingis. Ef á að fara fram hjá því, ef breyta á rannsóknarleyfum yfir í nýtingarleyfi þarf atbeina Alþingis til. Það mun ekki gerast með mínu atkvæði. Svona verður staðan fram til 2009. Þá mun Alþingi fá til umfjöllunar og formlegrar afgreiðslu niðurstöður rammaáætlunar og þá er það Alþingis að taka ákvörðun um það.

Að því er varðar þau svæði sem hv. þingmaður nefndi á Hellisheiði og víðar undrast ég að hann skuli í reynd vera að hvetja mig til þess að afturkalla þau leyfi vegna þess að hann bað um þau sjálfur. Þetta undirstrikar hins vegar þann tvískinnung sem VG hefur sýnt í málinu. Hann kemur t.d. fram í því að hv. þingmaður segir það alveg skýrt að hann er í prinsippinu með stóriðju ef hún er á réttum stað. Ja, herra trúr, ég gæti rifjað upp umræður sem ég átti við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur þar sem niðurstaðan var allt önnur. Hún vildi ekki stóriðju, jafnvel þó að orkan kæmi úr djúpborunum á svæðum sem fyrir löngu er búið að raska. Þetta stendur nú bara í þingtíðindum.

Hér vegast því á mismunandi sjónarmið innan VG alveg eins og nútíðin, bara það sem formaður VG sagði fyrir hálfum mánuði um að hann vildi gefa Helguvík í meðgjöf, í heimanmund, ef hann fengi að komast í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum er allt annað en VG sagði fyrir tveimur mánuðum. (Forseti hringir.) Menn verða að hafa eina stefnu í þessum málum. (Forseti hringir.) Það hefur núverandi ríkisstjórn.