134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:26]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi þeirrar ræðu sem hv. 9. þm. Reykv. n., Árni Þór Sigurðsson, flutti varðandi tiltekin atriði er lúta að Hafnarfjarðarbæ er mér ljúft að upplýsa að Hafnarfjarðarbær hefur lagt fram álit, komið fram með samhljóða niðurstöðu frá bæjarstjórninni varðandi þann samning sem Alcan fór fram með við ríkisstjórn Íslands og um hér er fjallað. En líkt og segir á bls. 3 í umræddu frumvarpi liggur fyrir að ríkisstjórnin og Alcan eru að leggja umræddar samningsbreytingar fram í kjölfar samningaviðræðna þeirra á milli. Hafnarfjarðarbær hefur ekki komið að þeim viðræðum, hvorki á umliðnum vikum né umliðnum mánuðum eða árum.

Þetta verkefni fór af stað árið 2001 í ljósi breytinga á skattaumhverfi fyrirtækja líkt og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom hér að áðan. Alcan óskaði eftir því að fara fram með mat á fasteignum sínum á árunum 2001–2002, kærði það til yfirfasteignamatsnefndar á þeim tíma og fékk niðurstöðu og í ljósi þess var lögð fram beiðni, eins og kemur hér fram, 28. maí 2003. Hafnarfjarðarbær hefur alla tíð sagt að það ákvæði eigi að gilda sem er í aðalsamningnum, ákvæði 3303, sem segir að gildistíminn sé frá og með næstu áramótum eða 1. janúar 2004. Þetta er alveg kýrskýrt af hálfu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samhljóða eða væntanlega mun bæjarstjórnin koma því á framfæri til iðnaðarnefndar þegar þetta frumvarp verður tekið þar til umfjöllunar.