134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:42]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svarið er alveg afdráttarlaust nei. Mér finnst að hv. þingmaður eigi skilið að fá ærlegt svar frá mér. Ég gerði mér að vísu ekki grein fyrir að þetta hefði verið síðasta embættisverk forvera míns. En eins og ég sagði í ræðu minni áðan þá er stefnan sem ég fylgi sú að þau svæði sem hafa rannsóknarleyfi getum við rannsakað, að þau svæði sem hafa nýtingarleyfi getum við nýtt. Ég afturkalla engin leyfi en ég gef engin ný leyfi út sem iðnaðarráðherra fyrr en þá Alþingi tekur fram fyrir hendurnar á mér. Ég hef sagt það við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson að ekki greiði ég atkvæði með því.

Ég hef sömuleiðis sagt að þessi stefna verður í gildi þangað til Alþingi hefur formlega afgreitt niðurstöður rammaáætlunarinnar. Ríkisstjórnin samþykkti það fyrr í þessari viku að stefna að því að því yrði lokið, þ.e. vinnu hennar, í maí 2009 og gefur sér síðan tíma fram á haustið til að vinna úr því og leggja fram niðurstöðuna til þingsins til formlegrar afgreiðslu. Þannig að á öllum stigum málsins hefur Alþingi eitt möguleika samkvæmt þeirri stefnu sem samþykkt er af báðum ríkisstjórnarflokkunum til að taka fram fyrir hendurnar á þeim iðnaðarráðherra sem hér stendur um það efni.

Ég ætla svo ekki að ergja hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur með því að lesa úr þeim stafla ræðna héðan og úr borgarstjórn Reykjavíkur sem ég hef sankað að mér á undanförnum árum og missirum um afstöðu VG til hinna ýmsu virkjana. En það getur vel komið að því að ég geri það ef liggur þannig á mér þann daginn.

Að því er Norðlingaölduveitu varðar þá er það alveg klárt af minni hálfu að það er ekkert sem leiðir til þess í stjórnarsáttmálanum að farið verði í Norðlingaölduveitu á þessu kjörtímabili og vonandi aldrei. Það verður alla vega ekki gert meðan Samfylkingin hefur eitthvað yfir því að segja. Og af því að hv. þm. Árni Þór Árnason spurði hvort ég hefði talað við Landsvirkjun en ég komst bara ekki að til að svara, þá hef ég gert það og gert henni þessa afstöðu mína (Forseti hringir.) ljósa með ákaflega afdráttarlausum hætti.