134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:53]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður leyfir sér að segja að ekki hafi orðið til auður. Hún ætti bara að tala við bæjarsjóð Hafnarfjarðar. Hún ætti að tala við atvinnurekendur í kringum álverið í Straumsvík. Og hún ætti að tala við Austfirðinga sem ætla að halda hátíð á laugardaginn þar sem ég ætla að mæta með gleði í hjarta til að gleðjast yfir því að atvinnulíf á Austfjörðum og mannlíf allt blómstrar.

Hafi ekki orðið til auður? Vissulega er til auður. Það verður til auður í kringum þessi fyrirtæki og þessa starfsemi en það hefur sérstaklega orðið til auður í Landsvirkjun sem er í eigu ríkisins. Þar verður auðurinn til og hann hefur orðið til í Landsvirkjun úr engu. Hann hefur orðið til vegna þess að Landsvirkjun selur aðgang að auðlindinni þannig að það verður til auður, ekki spurning, í kringum þessa atvinnustarfsemi í Hafnarfirði, Grundartanga, á Akranesi o.s.frv. Alls staðar er auðugt atvinnulíf sem blómstrar og svo verður til auður hjá orkufyrirtækjunum sem mynda eigið fé.

Vissulega er til auður en það verður enginn auður til þar sem ekki er virkjað. Ef við hefðum ekki virkjað við Búrfell á sínum tíma og ekki virkjað Þjórsá yfirleitt og öll þessi fljót væri þjóðin miklu fátækari en ella.