134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:57]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Frú forseti. Ég flutti í morgun jómfrúrræðu mína fyrir nær troðfullum sal. Ég hef komist að því þessa viku sem ég hef verið í þingsölum að menn geta undir hvaða máli sem er rætt um hitt og þetta. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki verið tryggasti áhorfandi að sjónvarpi Alþingis undanfarin ár. Þar af leiðandi hafði ég ekki gert mér grein fyrir því hve ólíkt það væri störfum í sveitarstjórnarmálunum, að við getum í raun farið um víðan völl í ýmsum málum.

En varðandi frumvarpið ætla ég samt sem áður að reyna að halda mig við efnisatriði þess. Þær fáu mínútur sem ég hef mundu ekki duga ef ég ætlaði að setja á langa ræðu um stóriðju, orkufyrirtæki, náttúruvernd, umhverfismál og annað álíka. En vissulega er margt í umræðunni í dag sem hægt væri að blanda sér inn í á einn eða annan hátt, þá sérstaklega þann þátt sem ágætur kollegi minn, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, kom að varðandi lýðræðismálin. Hann vék að því fyrr í ræðu sinni í dag. Hann tiltók miklar kosningar sem fóru fram í Hafnarfirði um tiltekið mál, þ.e. deiliskipulag fyrir stækkað álver í Straumsvík. Þar sýndum við þjóðinni, Hafnfirðingar, að það er hægt að fara fram með jafnstór mál eins og þar var gert. Ég hef sjálfur hvatt sveitarfélög til að taka það ákvæði inn í sínar samþykktir. Hafnarfjarðarbær er eina sveitarfélagið á landinu með slíkar samþykktir og jafnskýr ákvæði og raun ber vitni.

Óháð því liggur það fyrir í yfirlýsingu frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bæjarstjórnin muni ekki hafa frumkvæði að því að setja fram nýtt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir stækkuðu álveri í Straumsvík á þessu kjörtímabili. Það má vel vera að kosið verði um það í sveitarstjórn Hafnarfjarðar árið 2010 en við skulum ekki heldur gleyma því, eins og hefur komið fram í upplýsingum í fjölmiðlum, að með tilliti til þessara ákvæða í samþykktum bæjarins er hægt að koma fram með kröfu um það af hálfu annarra, að slíkt sé tekið til umræðu. Íbúalýðræðið virkar auðvitað í báðar áttir. Það má ekki vera þannig að sveitarstjórnin taki við beiðni frá íbúunum, ef þeir vilja láta fjalla um mál, og stingi því undir stól. Hins vegar þurfa mjög margir íbúar að koma fram með þá kröfu. Þetta eru ákvæði sem ég held að flestir hv. þingmenn hafi kynnt sér og menn þurfa ekkert að undrast það.

Þetta var sett inn í samþykktir Hafnarfjarðarbæjar strax árið 2002 þegar nýr meiri hluti tók þar við völdum. Á sama tíma breyttist, líkt og hv. þm. Pétur Blöndal og kollegi hans hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson komu að, ýmislegt í íslenskum skattalögum. Tekjuskattar á fyrirtæki lækkuðu úr 30% í 18% og gerður hafði verið samningur við Alcoa á Reyðarfirði um skattaumhverfi þess fyrirtækis. Þá stigu stjórnendur sem þá voru í álverinu í Straumsvík fram og óskuðu strax eftir viðræðum um breytingar á skattaumhverfi þeirra. Þá erum við að horfa til baka um fimm ár. Þeir töldu það ójafnræði, væntanlega á markaði, að um eitt fyrirtæki ætti að gilda samningur frá 1966 og í framhaldinu af því voru allar fasteignir, líkt eins og ég kom að áðan, álversins í Straumsvík settar í fasteignamat og Hafnarfjarðarbær vann þá vinnu í samvinnu við Fasteignamat ríkisins. Niðurstaða úr þeirri vinnu birtist okkur haustið 2002. Álverið í Straumsvík var ekki sátt við þá niðurstöðu og kærði úrskurð Fasteignamats ríkisins til yfirfasteignamatsnefndar og á vordögum 2003 kom niðurstaða úr þeim úrskurði sem þýddi að þá var orðið ljóst hversu hátt fasteignamatið yrði á eignum suður í Straumsvík.

Í lagafrumvarpinu liggur fyrir að þann 28. maí 2003, með leyfi forseta, beindi Alcan þeirri tilkynningu til ríkisstjórnarinnar að taka upp samninginn og óskaði fyrirtækið eftir því að lúta almennum íslenskum skattalögum frá og með 1. janúar 2004. Sú tilkynning var líka send Hafnarfjarðarbæ, enda Hafnarfjarðarbær hluti af þessum þríhliða samningi Alcans, ríkisins og Hafnarfjarðarbæjar. Einhverra hluta vegna tóku samningaviðræðurnar mun lengri tíma heldur en gert var ráð fyrir og Hafnarfjarðarbær kom ekki beint að þeim. Það var ekki fyrr en í vor eftir að fjölmargir höfðu kallað eftir niðurstöðu úr viðræðunum, líkt eins og hv. þingmenn muna eftir frá aðdraganda kosninganna um deiliskipulagið, að hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra Jón Sigurðsson lagði umrætt frumvarp fram. Það liggur fyrir líkt eins og ég gerði grein fyrir áðan að það hefur verið túlkun Hafnarfjarðarbæjar samhliða túlkun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að samningurinn eigi að taka gildi frá og með 1. janúar 2004 en ekki, eins og niðurstaðan varð í þeim samningaviðræðum sem fóru fram á milli ríkisstjórnarinnar og Alcan, þ.e. 1. janúar 2005.

Hafnarfjarðarhöfn hefur einnig lagt fram ákveðnar athugasemdir sem hafnarstjóri mun væntanlega koma á framfæri til iðnaðarnefndar þegar þetta frumvarp fer þangað. Ég geri ráð fyrir því að engin mótmæli því að þetta frumvarp nái fram að ganga og fari til iðnaðarnefndar. Ég vil einnig sérstaklega taka til atriði sem tengist svæði takmarkaðrar ábyrgðar. En í samningnum frá 1966 er fastbundið svokallað svæði takmarkaðrar ábyrgðar en það hefur verið hljómgrunnur fyrir því í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að það hefði verið kostur að taka upp þau samningsákvæði um leið og þau sem lúta að svæði takmarkaðrar ábyrgðar sé minnkað til jafns við svokallað þynningarsvæði.

Þeir sem kynntu sér kosningarnar í vor, ég geri ráð fyrir því að hv. þingmenn hafi flestir kynnt sér þær, vita að fjallað var um tvö svæði, annars vegar svæði takmarkaðrar ábyrgðar þar sem álverið hefur takmarkaða ábyrgð gagnvart þeirri starfsemi sem þar fer fram, á svæðinu í kringum álverið. Síðan höfum við fest í aðalskipulag svokallað þynningarsvæði sem er minna og byggir á mengunarvarnakröfum og við höfum lagt til, vegna þess að mengunarvarnirnar hafa stóraukist og batnað frá 1966, bæði varðandi flúor og brennisteinstvíoxíð.

Við höfum viljað fara fram með það … — ég segi alltaf við og þarf að fara að læra að ég er ekki staddur í Hafnarborg í Hafnarfirði. En Hafnarfjarðarbær hefur viljað fara fram með þessi tvö svæði, takmarkaðrar ábyrgðar og þynningarsvæðið, að þau kyssist á sömu línu en séu ekki ólík eins og nú er.

Þetta eru þau þrjú atriði sem ég vil koma á framfæri. Það er alveg ljóst að nái þetta frumvarp fram að ganga, sem ég tel eðlilegt, þá verður það til góða. Við getum glaðst yfir því að skattaumhverfi fyrirtækja á Íslandi sé jafnjákvætt og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lýst. Ég vil hins vegar segja að þetta er spurningin um jöfnuð á milli fyrirtækja, að þau starfi undir sama hatti. Fyrirtæki sem framleiða sambærilega vöru og vinna í sama umhverfi, algerlega óháð því hvort við getum verið sammála um hvort þau vinni þjóðfélaginu til góðs eða ekki, ættu að búa við sambærilegar aðstæður. En það sem breytist er að Alcan mun greiða tæplega 400 millj. kr. lægri skatta á ári. Hafnarfjarðarbær mun hins vegar fá tæplega 100 millj. kr. aukningu á sköttum. Bæjarfélagið fer að fá fasteignaskatta hjá Hafnarfjarðarbæ í staðinn fyrir framleiðslugjaldið og vissulega hefur verið erfitt að ákvarða framleiðslugjaldið hverju sinni inn í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar því að það tengist framleiðslumagni og stöðu dollars. En ríkið mun vissulega missa nokkrar tekjur. En eins og ég sagði áðan tel ég sanngjarnt að þetta frumvarp nái fram að ganga með þeim hætti sem það er kynnt óháð því að ég sjálfur get ekki tekið undir þá gildistöku sem hér er lagt upp með, þ.e. 1. janúar 2005.

Það kemur fram í fylgiskjali frá fjármálaráðuneytinu, með leyfi forseta:

„Ekki var mögulegt að meta áhrif breytinganna árið 2006 þar sem ársreikningar og álagning fyrir það ár lágu ekki fyrir við gerð umsagnarinnar.“

Ég held að drög að ársreikningi séu komin fram á þessu stigi. Þar af leiðandi ætti að vera hægt að meta þetta fyrir árið 2006. En ef ég skoða þetta með tilliti til sveitarfélagsins og horfi til þessara fjögurra ára: 2004, 2005, 2006 og síðan 2007, er ljóst að þær tekjur sem Hafnarfjarðarbær á inni hjá Alcan þótt Alcan muni náttúrlega sækja þau gjöld til ríkisins, nema um 400 millj. kr. Það eru ansi háar tölur í rekstri sveitarfélagsins. Ég skil því vel að Hafnarfjarðarbær komi til með að halda sínum hagsmunum fram í þeim umræðum sem fram munu fara í iðnaðarnefnd.