134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[17:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér hefur orðið dálítil umræða um ýmislegt sem tengist virkjana- og stóriðjumálum í tengslum við þetta mál og ég heyri að hv. þingmenn, nýir, sem eru óvanir þessum stíl finnst þetta kannski svolítið losaralegt en þetta er alvanalegt og telst nú ekki að fara langt út fyrir efnið, ekki nema menn fari þá að ræða í löngu máli alls óskylda hluti. Það mætti kannski gera athugasemdir við það ef menn færu í langar ræður um utanríkismál undir þessum dagskrárlið. En það er ekki nema eðlilegt að menn noti tækifærið og skiptist á skoðunum um ýmislegt sem þessu viðkemur.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur heiðrað mig með því að nefna nafn mitt ærið oft í þessari umræðu í dag og gerði það sama í gær. Það er sjálfsagt að þakka fyrir sig. Hæstv. iðnaðarráðherra getur lengi bætt sjálfan sig í ómerkilegheitum. Það sannast enn, t.d. í tilraunum og tilburðum hans til að snúa út úr orðum manna og gera þeim upp skoðanir. Hæstv. ráðherra gekk svo langt áðan, sem gefur honum sjálfum feiknarlega góða einkunn, að segja að ég hafi gefið álver í Helguvík í forgjöf, (Iðnrh.: Í heimanmund.) í heimanmund í væntanlegum viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn. Og vitnar þar til blaðaviðtals þar sem ég var að svara og útlista þá stefnu okkar að við vildum stöðva allar frekari stóriðju- og stórvirkjanaframkvæmdir sem lagalega og tæknilega væri hægt að stöðva. Stæðu menn hins vegar frammi fyrir því að einhver mál væru komin svo langt að það væri ekki hægt og ekki gerlegt með neinum lögmætum stjórnvaldsaðgerðum, þá væri það auðvitað veruleiki sem menn yrðu að horfast í augu við.

Ég man að ég sagði t.d. að þökk væri Hafnfirðingum, að þá væri enn hægt að stöðva þá stækkun sem ella hefði tæplega orðið mögulegt ef Hafnfirðingar hefðu samþykkt og bæjaryfirvöld í beinu framhaldi gefið út leyfi, auglýst og gefið út framkvæmdarleyfi. Þá hefðu öll tilskilin leyfi verið komin og augljóslega orðið mjög snúið lagalega og tæknilega að stöðva málið. Auðvitað getur ýmislegt komið til greina við slíkar aðstæður, jafnvel lagasetning og ef menn geta rökstutt hana með brýnni þörf, almannahagsmunum, þá getur stjórnvöldum vissulega verið sætt á slíku og það telst þá ekki brjóta meðalhófsreglu eða góðar stjórnsýsluvenjur, en við slíkar aðstæður er augljóst mál að til bótagreiðslna gæti þurft að koma o.s.frv.

Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að sleppa því að hafa miklar áhyggjur af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og afstöðu okkar til umhverfismála. Ég held að það sé óþarfi hjá hæstv. iðnaðarráðherra að láta það valda sér svefntruflunum eins og mér virðist vera. Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra ætti bara að hugsa um sig og sína. Ég held að Samfylkingin eigi nóg með sig í umhverfismálum. Ég held að hennar bíði ærið verkefni að útlista fyrir þjóðinni hvernig það gerðist að nýtilkominn áhugi hennar á umhverfismálum var jafnfljótur að gufa upp og hann var að myndast. Fagra Ísland er orðið að magra Íslandi. Satt best að segja er það með snautlegri leiðöngrum sem maður hefur séð einn flokk fara í og það eru viðræðurnar við Sjálfstæðisflokkinn og það hvernig Samfylkingin lak niður í þessum efnum öllum saman.

Stjórnarsáttmálinn í þeim efnum er satt best að segja eins og hálfgerður brandari. Það er t.d. talið ríkisstjórninni sérstaklega til tekna að stefnt sé að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok ársins 2009. Það hefur verið stefnt að því lengi. Það liggur fyrir í opinberum gögnum að áætluð verklok séu 2009. Hvaða erindi á þetta þá inn í stjórnarsáttmálann? Er það eitthvað til að stæra sig af það eigi ekki að fara í Öskju, að það eigi ekki að virkja í Öskju, einu af eldri friðlöndum Íslands í hjarta hins stóra Vatnajökulsþjóðgarðs sem Alþingi er búið að ákvarða? Er það eitthvað til að stæra sig af? Eða Kverkfjöll. Hefur einhverjum manni einhvern tímann dottið í hug að það ætti að fara að virkja í Kverkfjöllum? Ríkisstjórnin eða þeir sem sömdu þennan stjórnarsáttmála hafa haft hugmyndaflug til þess og þess vegna talið að það væri ástæða til að setja það hér niður til þess að geta stært sig af því væntanlega. Nei, við ætlum ekki að taka Kverkfjöll, við erum svo rosalega græn — er verið að segja með þessu.

Ég vil líka taka upp rannsóknarleyfið í Gjástykki og þann dæmalausa gerning sem það var að gefa það út tveim dögum fyrir kosningar. En veruleikinn er sá að þetta er glænýtt leyfi og svæðið er óraskað. Það hefur enginn kostnaður fallið til vegna þess enn þá þannig að auðvitað ætti ráðherra að afturkalla leyfið ef ríkisstjórnin ætlar að vera sjálfri sér samkvæm. Eitt af því fáa sem hönd á festir í þessu plaggi er að það eigi ekki að fara inn á óröskuð svæði á þessu tímabili fram að 2009. Það verður farið inn á óraskað svæði, síðasta stóra óraskaða háhitasvæðið í byggðum Norðurlands ef þetta gerist. Því þegar er undir Kröflusvæðið allt, og nú er meira að segja verið að sækja fastar að Leirhnjúki og Víti en áður, Bjarnarflag er undir og Þeistareykir nú þegar. Gjástykki er því síðasta stóra ósnortna háhitasvæðið í Þingeyjarsýslum fyrir utan þau sem liggja lengra inni í Ódáðahrauni og þá kannski svæðinu undir söndunum í botni Öxarfjarðar sem er þó álitamál hvort sé raunverulega háhitasvæði.

Gjástykki er mikil náttúruperla. Ég veit ekki hvort menn hafa gengið þar um og á nýju hraununum úr Kröflueldum frá 8. áratugnum. Þar eru mörg undur sem eru falinn og lítt rannsakaður fjársjóður. Gjástykki er að verða eitt vinsælasta svæðið til að sýna erlendum blaðamönnum og fræðimönnum á sviði náttúruvísinda af því að það er undraheimur og það er ekki eins og það sé án fórna að nú á að fara inn á það.

Gjástykki hefur verið geymt sem varasvæði og áformin um virkjun háhitans í Þingeyjarsýslum hafa allt fram að þessu gengið út á að ekki yrði farið í Gjástykki. Það yrði geymt og það hefur haft stöðu varasvæðis samkvæmt skipulagi fram að þessu. Enn er því hægt að forða að því slysi að farið verði inn á þetta óraskaða svæði ef ríkisstjórnin ætlar að vera sjálfri sér samkvæm.

Það er heldur aumleg málsvörn að skjóta sér á bak við það að fráfarandi iðnaðarráðherra hafi gefið út þetta leyfi rétt áður en hann féll í kosningunum, eða féll svo sem ekki af því að hann hafði aldrei verið kosinn á þing en komst ekki þangað inn eins og kunnugt er.

Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra sem var hér uppi með dálítið athyglisverðan málflutning hafi sennilega talið sig vera að hafa í hótunum við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð um að hann hefði sankað að sér ræðum manna úr borgarstjórn Reykjavíkur eða hvaðan það nú var. Lesi hann sem mest og vitni hann sem oftast í okkur, hæstv. iðnaðarráðherra. Ég kvíði því ekki. Ég er ekki búinn að sjá hver ber hærri hlut úr þeirri viðureign. Ef hæstv. iðnaðarráðherra treystir sér í almennilegar, málefnalegar umræður um umhverfismál sem á náttúrlega eftir að reyna á, því að lítið hefur farið fyrir því af hálfu hæstv. ráðherra að hann héldi sig við málefni og staðreyndir og ætti orðastað við menn á grundvelli raunverulegra skoðana þeirra en ekki uppgerðra.

Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra gerði rétt í einu, að byrja á því að lesa ræður sínar frá í gær og hugleiða orðbragðið sem hann viðhafði þar um þingmenn og undarlegt að forsetar skyldu sitja þegjandi undir þeim hlutum sem hæstv. ráðherra sagði þar og þeim gál sem var á honum í ræðustóli á Alþingi í gær. Orðbragðið þar um nýja þingmenn er þannig að ég hef sjaldan lesið annað eins. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að vitna í það. Ég ætla ekki að gera Alþingi þau ósköp að vitna í það sem hæstv. iðnaðarráðherra sagði og talaði þar beint um viðkomandi einstaklinga, t.d. hv. þm. Álfheiði Ingadóttur og hv. þm. Atla Gíslason.

Ekki kvíði ég umræðunni. Ég held að Samfylkingin eigi mikið verk fyrir höndum að útskýra uppgjöf sína í þessum efnum og það er fátækleg málsvörn að skjóta sér nú á bak við það að ekki eigi að gefa út ný leyfi. Hvernig hafði Samfylkingin hugsað sér að koma fram því stóriðjustoppi sem hún fyrir kosningar þóttist vilja? Var að vísu stundum og sérstaklega norðan heiða þannig útfært að það væri kannski pláss fyrir eitt álver. Framan af virtist Samfylkingin heldur á því að túlka Fagra Ísland þannig að það væri pláss fyrir svona eitt álver en svo herti hún sig upp í að svo væri ekki. Og í allmarga mánuði var túlkunin sú að það ætti bara alveg að stöðva frekari álvers- og stóriðjuframkvæmdir í nokkur ár. Ekki satt?

Hvernig hafði Samfylkingin ætlað sér að gera það? Kemur svo hér til leiks og segir: „Það á ekki að gefa út ný leyfi.“ Það hefur engin áhrif á áform orku- og iðnfyrirtækjanna vegna þess að þau hafa í höndunum miklu meira en nóg af virkjunarleyfum og rannsóknarleyfum með vilyrði fyrir nýtingu til þess að geta sett öll álversverkefnin af stað. Fyrri áfangana í Helguvík og á Húsavík, sem allir vita að er bara helmingurinn af fullbyggðu álveri, stækkun í Straumsvík og þess vegna fjórða verkefnið í Þorlákshöfn. Það dugar ekki hjá Samfylkingunni að skjóta sér á bak við þetta.

Hvernig hafði Samfylkingin þá hugsað sér að gera þetta? Það er engin stoð í neinu sem hér stendur í stjórnarsáttmálanum í þeim efnum og það er ekkert upp úr ráðherranum að hafa um það hvernig þeir ætla að fara í þetta. Á köflum virtist Samfylkingin ætla að skjóta sér á bak við það að ekki yrði til losunarkvóti. Að Kyoto-skuldbindingarnar mundu sjálfkrafa afgreiða málið, stoppa þetta af. Það væri að minnsta kosti ekki pláss nema fyrir eitt álver innan þeirra ramma. En er þá Samfylkingin að taka þannig á þeim málum? Nei. Er ekki búið að taka við umsóknum frá öllum fyrirtækjunum um alla heimsins losun hér á næstu missirum? Samfylkingin eða ríkisstjórnin hefur engar línur mótað um að það yrði t.d. sagt stopp þegar komið verður upp í þakið miðað við núverandi skuldbindingar samkvæmt Kyoto fram að 2012. Það liggur ekkert fyrir um það.

Það skyldi nú ekki vera að það væri meiri ástæða fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að hafa áhyggjur af sjálfum sér og þeim trúnaði sem heiðarlegir stjórnmálamenn eiga að sýna kjósendum sínum og því sem þeir hafa sagt fyrir kosningar. Ætli það sé ekki þannig að þetta sé einhver snautlegasta uppgjöf sem lengi hefur verið hjá flokki sem skynjaði þungann í umhverfisverndarbylgjunni, vitundarvakningunni með þjóðinni og rauk til og keypti ósköp af grænni málningu og hellti yfir sig og kallaði Fagra Ísland? En hún var ekki mjög þvottekta, sú málning. Það þurfti ekki nema eina sturtu eftir kosningarnar til að skola hana alla af. Svo stendur Samfylkingin jafngrá og hún hefur alltaf verið núna með þessi svik á bakinu. Svo maður nefni nú ekki Írak. Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að taka okkur af lista hinna viljugu og staðföstu þjóða, var það ekki? Hvar er það?

Samfylkingin þarf ekki að hafa áhyggjur af því að við munum ekki standa okkar plikt í þessum málum. Og einu get ég alveg lofað hæstv. iðnaðarráðherra og öðrum samfylkingarmönnum, það er eitt sem er auðvitað alveg ljóst. Við hefðum aldrei farið inn í ríkisstjórn á þessum forsendum í umhverfismálum. (Iðnrh.: Lestu viðtalið við sjálfan þig.) Ætli ég viti ekki hvað stóð í því og ætli ég viti ekki hvaða afstöðu ég og minn flokkur hefur?

Ég held að hæstv. ráðherra ætti að hætta þeim ósið að taka orð manna og snúa út úr þeim og gera þeim þar upp skoðanir. Er það það eina sem hæstv. ráðherra getur og Samfylkingin? Eina vörn hennar fyrir allt sem miður fer eru Vinstri grænir og Steingrímur J. Sigfússon. Hvar væri Samfylkingin ef hún hefði ekki mig? Hvar væri hæstv. iðnaðarráðherra ef hann hefði ekki mig? Er þetta þá allt í lagi, af því að hann var ekki í ríkisstjórn og hefði enga málsvörn? Af því að það eina sem alltaf er hægt að segja er: Já, en Steingrímur, við erum í ríkisstjórn út af Steingrími? Við erum að svíkjast um í umhverfismálunum, það er í lagi af því að Steingrímur sagði eitthvað í blaðaviðtali einhvern tímann. Þetta er fíni málflutningurinn. (Gripið fram í: Gleymdu ekki …) Það er reisn yfir þessu. Það er stórt í mönnum hjartað. Ég gleymi ekki Þjórsá en það gæti verið að hæstv. iðnaðarráðherra ætti eftir að verða í vandræðum með það mál. Það skyldi nú ekki vera að það yrði bankað eitthvað upp á hjá honum.

Nú skulum við bara láta það allt saman koma í ljós og við skulum láta menn njóta vafans en eigum við þá ekki að gera það á báða bóga? Er ekki hægt að gera þær kröfur til fólks sem tekur það að sér, að vísu sárnauðugt eins og hæstv. iðnaðarráðherra, að verða ráðherra í ríkisstjórn, með tárum yfir því hve erfitt það væri fyrir hæstv. ráðherra að færa þá fórn í þágu lands og þjóðar að taka að sér ráðherraembætti? Við skulum bara ætla að hann vilji vel og látum það þá koma í ljós. En ég fer fram á að hæstv. ráðherra haldi sig við staðreyndir og sé ekki að gera mönnum upp skoðanir. Haldi hann þeim sið er auðvitað bara eitt við því að gera og það gerist yfirleitt sjálfkrafa með stjórnmálamenn af því tagi, það nennir enginn að eiga orðastað við þá. Þeir verða svo fullkomlega ósvaraverðir að þeir tala sjálfa sig út úr allri rökræðu og allri umræðu um stjórnmál. Kannski hæstv. iðnaðarráðherra ætli að hafa þetta þannig. Maður velti því fyrir sér hvort hann mundi reyna að taka sig eitthvað á í þessum efnum og reyna að temja sér svolítið ábyrgari framgöngu þegar hann væri orðinn ráðherra á nýjan leik, kominn heim til íhaldsins þar sem hann undi glaður og sæll á árunum 1994 og 1995. En það virðist ekki vera, ekki ef marka má málflutning hans hér síðustu dagana svo maður tali ekki um skrif á heimasíðu og verður ekki meira um það sagt.