134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:50]
Hlusta

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vera svo vinsamlegur að láta þess getið að ég hafi ekki mætt á fund í utanríkismálanefnd. Það rétt hjá hv. þingmanni. Ágætt að það komi fram. Ég var að sinna skyldum mínum sem foreldri í grunnskóla dóttur minnar og fyrir misskilning náðist ekki í annan fulltrúa okkar til að mæta á fundinn. En ég get róað hv. þm. Árna Pál Árnason með því að ég hef kynnt mér gögn málsins rækilega.

Ég hef lesið greinargerð frá Alþýðusambandi Íslands. Ég hef farið yfir skýrslu starfshóps um málefni útlendinga og ég hef af þessu tilfelli rennt yfir tiltæk gögn sem ég hef í málinu. Afstaða mín er vel ígrunduð og ekki tekin í neinu fljótræði. Við komumst einfaldlega að ólíkri niðurstöðu í þessum málum. Ég tel þann rökstuðning ekki beysinn sem hér hefur verið fluttur og ekki fullnægjandi. Ég er þeirrar skoðunar, þótt það liggi í eðli þessara samninga um aðild nýrra ríkja þegar þau eru tekin inn, að það þurfi að rökstyðja frávik frá því að þau séu tekin sem fullgildir aðilar inn í hópinn úr því að þeim er veitt aðild á annað borð.

Ég nauðaþekki þessi mál eins og þau sneru að Eystrasaltsríkjunum gegnum veru mína í Norðurlandaráði. Ég átti þar mikinn þátt í því að Norðurlandaráð reyndi að leggja lóð á vogarskálar þess að byggja upp vinnumarkaðsskipulag, styðja við bakið á veikburða verkalýðshreyfingu og atvinnurekendasamtökum í hinum Eystrasaltsríkjunum. Ég veit vel um hvað þetta mál snýst. Vonandi líður þá hv. þingmanni aðeins betur með að afstaða mín er ekki byggð á fáfræði, upplýsingaskorti eða því að ég hafi ekki sett mig inn í hlutina. Það er ekki svo. Þetta er bara einfaldlega mín niðurstaða og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við erum ósammála um mat á þessari stöðu. Það er nú enginn heimsviðburður þó það gerist.

Það er bara ekki þannig, hv. þingmaður, að aðrir hafi prókúru fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð eða ráði því hver hennar niðurstaða verður. Því lendum við sjálf. Hvað sem afstöðu annarra fulltrúa í stjórnarandstöðu eða annarra flokka yfir höfuð líður þá teflum við ósköp einfaldlega fram okkar rökum. Þau hafa hér verið flutt. Við berum ábyrgð á þeirri afstöðu sem við tökum og um það er ekki meira að segja.