134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

þátttaka Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. mál
[17:52]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var fjarri mér að ætla að gera lítið úr hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni eða Vinstri hreyfingunni – grænu framboði eða afstöðu þeirra til þessa máls. Nefndarálit minni hlutans er einfaldlega stutt þeim rökum að skort hafi á rökstuðning af hálfu stjórnvalda. Ég vildi þess vegna að það kæmi fram að sá rökstuðningur hefur verið ítarlega fram borinn.

Þingmaðurinn spyr: Hver er ástæðan fyrir því að beita þessum fyrirvara ekki á þessi tvö ríki ef hann gildir ekki gagnvart öðrum ríkjum sem nú þegar eru hluti af hinum almenna vinnumarkaði? Svarið liggur akkúrat í hans eigin nefndaráliti en þar segir, með leyfi forseta:

„Aðlögunarfrestum var að vísu beitt í tvö ár þegar tíu ný ríki fengu aðild að Evrópusambandinu og þar með Evrópska efnahagssvæðinu árið 2004 en fyrir ári síðan var ákveðið að framlengja þá aðlögunarfresti ekki. … Aðlögunartíminn frá 2004 var ekki notaður nægjanlega vel og enn skortir markvissa heildarstefnu og miklu markvissari aðgerðir í málefnum innflytjenda sem koma hingað til lands til vinnu til lengri eða skemmri tíma.“

Það liggur fyrir að það er ekki til neitt upplýsingarefni á tungumálum sem nýtast borgurum Búlgaríu og Rúmeníu við komuna hingað til landsins. Það liggur fyrir og Alþýðusamband og Vinnumálastofnun vinna í því máli. Það liggur líka fyrir að margir aðilar í stjórnkerfinu voru seinir að taka við sér vegna þess fjölda sem menn sáu ekki fyrir að kæmi hér 2006. Ef þetta eru nú ekki gild rök, hv. þingmaður, þá veit ég ekki hvað eru gild rök í þessu efni.

Það hafa verið færð fram mjög gild rök. Þau beinast einfaldlega að því að það er mikilvægt að búa þannig í haginn að því fólki sem hingað kemur séu ekki boðnar óboðlegar vinnuaðstæður og ekki sé brotið á mannréttindum þess. Verkalýðshreyfingin þarf að vera í stakk búin til að uppfræða fólk um réttindi þess og um íslensk lög og reglur á vinnumarkaði þannig að ekki verði farið með það fólk eins og hunda.